Færsluflokkur: Ljóð

Tálsýn.....

Drungi í höfði mér
hugsunin splundrast
inn í óravíðáttuna!
 
Tilveran hlær og skopast.
Teymir mig á
asnaeyrunum.
 
Sýnir mér myndir,
bregður upp fallegri sýn,
aðeins til að
myrkva hana á ný!
 
Lagleg tálsýn mín,
leiðir mig í annan heim inn.
Veröld sem snýr fallegri
ásjónu sinni að mér! 

Allumlykjandi hagvöxtur....eða ekki?

Er veröldin grá með bláum röndum,
upplýst neonskilti í húminu.
Síðustu dreggjar alvöru kaffisins hverfa úr minni.
Angist mín kannski ástæðulaus, nýr framfaratími í uppsiglingu.
Hagvöxtur hugans, súluritin svífa í hæðir,
kappsamleg framleiðsla í viti firrtum heimi.
Og menn segja bara; hvaða blekbull er þetta sem vellur hér um
allar koppagrundir?
Hvergi friður fyrir lausnurum heimsins.
Menn sem ætla að leysa allan vanda með prósa og
angurværum ljóðum um ástina.
En ekkert skal stöðva hagvöxtin,
framleiðum fram í rauðan dauðann. 

Skemmtun!

Gæti hafa gerst á kvöldi svipuðu því sem nú, stormur, rigning, slydda.
Reykjavík fyrir hartnær tveimur áratugum......
 
Skemmtun.
 
Skrýðist hempu blekkingarinnar. Set upp upp eina af hinum liztitilegu grímum.
Helli í mig miði, svo talandinn verði sannfærandi.
Reyni að sýna í augunum ástleitinn bjarma, logandi órar!
Stenka á mig rakspíra "Passion". Pússa skóna, gleymi ekki að konur,
alvöru konur líta á skóna.
Fínar buxur, skyrta í stíl, silkibindi, töff leðurjakki.
Svalur gæi! Helli í mig meiri miði.
Passaðu þig strákur (!) konur líta ekki á slefandi fulla bjána,
hversu flottir sem þeir eru í tauinu.
Rigning, tek leigubíl, beint á veiðilendur hugaróranna.
Biðröð, mjög löng biðröð, stend úti við götu, troðningur í röðinni,
ýtt harkalega við mér, hrasa út á götu, næstum í veg fyrir bíl.
Bílstjórinn rétt nær að sveigja hjá, en æ nei, pollur, gusurnar ganga yfir mig,
rennandi, upp úr - niður úr, öskra!
Öll röðin beljast um í hlátrasköllum, þvílíkt ástand, rölti heim,
sjálfsvirðingu rúin.
Ó, þvílík útreið, þvílíkt kvöld! 
 



......um sólu

Löngun í himnaríkishæðir
í einu hendingskasti.
Hverfast í spuna fullnægjunnar.
Sökkva í haf óendanleikans.
Koma aldrei aftur.
Hverfa á braut um sólu hvata! 

Hljómurinn....

I.
 
Það hljómar, í höfðinu glymur,
tónverk í smíðum.
Tónlist úr húsi þagnarinnar.
Ferðast í huganum um land tækifæranna,
finna blæ hins hamingjuríka friðar.
 
II.
 
Löngun mín nær í þriggja metra radíus.
Teygi mig, reyni að snerta hið ósnertanlega.
Upplifanir í sýnd og reynd.
Hjóm mig læt tæla, inn í hugann,
þar sem skapa nýjan sýndarveruleika. 

Flótti úr nútímanum! (Gamalt úr skúffunni.)

Undirbúningur undir lífið á galeiðunni.
Spurning um vímu, deyfa hugann eitt andans augnablik.
Setja upp rétta svipmótið.
Augnablik, hvernig blása vindar í kvöld.
Gengur rautt eða kannski svart.
Heimur á flótta, kapphlaup í gin heimskunnar.
Ná upp hraða sem hægt er að vera sæmdur af.
Bruna á mót geggjuninni, kemur hún svo sem ekki nógu snemma? 
Glaðhlakkalegir púkar sitja á öxlum okkar, skemmta sér vel.
Leikhús fáránleikans, líf í trylltum dansi. Sviðsmynd öfganna.
Tónfall síbyljunnar. Hringlar orðið í hausnum á þér vinur.
Er gangverkið farið að skrölta!
Og þig byrjar að dreyma paradísarlífið, sem er viðsnúningur
á núverandi líf.
Gulur sandur, húla - húla meyjar sem dansa innan um pálmatréin.
En draumar eru oft loftbólur.
Svo þú ferð og reynir að ná sambandi við hinn heiminn, þú veist,
fréttir úr eftirlífinu, ferð á skyggnilýsingu. 
Halló - halló er í salnum einhver sem þekkir BOND - JAMES?
Augnablik! Þetta gengur ekki.
Ferð í þriggja áfanga handayfirlagningu.
Rifja upp fyrri líf þín. Kannski gerðist eitthvað spennandi þar.
Kannski varstu LEIFUR hinn HEPPNI og fannst þá VÍNLAND hið góða.
Áttirðu smá ástaræfintýri með indiánaskvísum?
En hvað gagnast manni minningar úr fyrra?
Kaffi í bolla / drekk / þrjá hringi réttsælis yfir höfðinu, smá
andardrátt í bollann, þurrkann á ofni.
Kerling með slæðu á höfði, hringlandi armbönd.
Eðla frú, sérðu eitthvað í bollanum.
Já, ég sé ferðalag og mikla peninga á næstunni. 
Virkilega, núna fljótlega? 
Já, mjög fljótlega!
Svo þú gengur út í gleðivímu. Loksins - loksins.
Er dyrnar lokast á hæla þér stígur spákonan gleðidans.
Pakkar niður í töskur, pantar leigara.
Keflavíkurflugvöll takk, með hraði.
Já, hún stundar gjöfula atvinnugrein! 
 
 

Minningar um ókomin ár!

Leiftur skilnings í órannsökuðum hugarfylgsnum okkar.
En ekki bærist hár í úlfaþytnum.
Þó eru mörg ljón, margar átyllur til að gera ekkert.
Við stöndum undir klettum, á strönd, horfum á mánann,
horfumst í augu, syndum á haf út.
Ekkert spyrst, lifum í minningunni, gerum vart við
okkur í draumum! 

...með blænum

Hún kemur með blænum, utan af sjónum,
víman, smygluð vara af kaupskipi
martraðarinnar.
Límist við, skríður, sprettir upp
heilanum, hleypir löngununum út,
æsir, tryllir, tekur flugið á lendur
framtíðarinnar, í óútskýranlegum
litaafbrigðum. 

Gamlir prósar úr skúffunni!

Og tíminn líður hjá,
rétt eins og fljótið.
Rennur í lygnu, og allt í einu
steypist það um gljúfrin.
Ást og væntingar, löngun og veruleiki.
Skin sólar í huganum,
lýsir upp skúmaskotin.
Hrekur drauga einsemdar og brjálæðis
fram í sviðsljósið,
hvar þeir stíga dans,
léttan ræl.
Diskóbyltingin liðinn hjá,
rólegur zambataktur tætir upp kynórana.
Æfintýri í nóttinni!

 
 
-------------------------------------------------------------
------------------------------------------------------------- 
 
Spyrst út um hagi
þína í voða veröld.
Þegar tjald er dregið fyrir huga
mitt í  blóma þínum.
Þegar hugmyndir helst fæðast,
þroskinn að skila sér.
En þá hverfa í heim
tilhæfulausan, geggjaðan.
Skref fyrir skref í áttina að
algleymi hugóranna. 

Sólris.... (Prósi)

Minnist tíma þá allt lék í lyndi,
eindrægni ríkti og fuglar sungu á grein.
Nú greinist allt í aðrar áttir og vart að maður
átti sig á nokkrum hlut sem í hlutarins eðli
er ekki svo óeðlilegt miðað við að allt var
vitlaust greint í upphafi.
Það voru ekki fuglar sem sungu á stakri grein
heldur greinilega tenórar af Guðs náð og friði
sem brýndu raddir sínar við upprisu sólar
í landi drauma minna.......... 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband