Færsluflokkur: Ljóð

SKYNVÍKKUN! (Prósi)

Skynvíkkun.
Gengur um dyr, yfir í hina víddina.
Minni sem heyrði í texta frá sjöunda áratugnum.
Fólk gekk um í leiðslu, söng um frið, blómum skrýtt.
Andóf gegn stríðsrekstri, svo féll hreyfingin á eigin bragði.
Of mikið dóp, rokk og ról.
Í dag er þetta fólk sú kynslóð sem lagði hornsteininn að
hinum mikla "uppakúltúr".
Gleymdi byltingunni sinni, gafst upp á að breyta kerfinu
og sameinaðist því.
Ó, þessar litlu sætu byltingar, unglingar að stíga fyrsu
skrefin inn í fullorðinsárin.
 
Eftir stendur sýrutónlistin, frægar sögur af rokkgoðum
sem lifðu hátt, stutt og brjálæðislega.
Dóu á niðurfallinu.
Jú, settu X í söguna, hafa verið tilefni til margra heilabrota
um tilgang og gildi lífsins.
Til að taka t.d. hvort er betra að lifa lengi og viðburðarlaust,
eða hratt og hátt í einum viðburðarríkum blossa! 

Draumdofi.......

Á andartakinu þegar maður telur sér allt fært.
Hugsun sem slær niður, allt í einu óforvarandis. 
Lítur til baka, mörg ár aftur, þegar æskan var
þröskuldurinn sem stöðvaði draumana.
 
En nú eru æskuárin að baki.
Draumarnir aðrir, en eiga sammerk að rætast ekki.
Lífið leikur annað leikrit, eða er ég staddur í annari bók!
 
Einhver misskilningur í gangi, leiðin um skóginn er dimm.
Vitinn á klettasnösinni, villuljós!
Umkringd skrælingjalýð sem reynir að tæla mig, þig,
hafa af okkur gott, fleygja oss síðan í hafið.
 
Draumaveröldin, aðeins blossi í vitfirrtum heimi.
Tælir okkur áfram, um dimman dal hversdagsins.
Notum öll meðul til að deyfa hugann, lifa af daginn.
Sveiflumst á milli tilfinninga, glöð, döpur.
 
Grátum draumana, sem aldrei rætast.
Leitin stendur yfir, finna punkt í tilverunni.
Glata, sýta, gleyma draumunum.
Lifa draumlaus, steinsteypukastalarnir
þrengja að, byrgja sýn.
 
Náttúran brátt eitthvað sem lest um í fornum bókum.
Úr tengslum, aðeins þegn á leikvelli tilbúinna þarfa.
Bíður dauðans, í von um að þá fyrst byrji lífið! 

Týnd...

Sól á lofti - þúsund ár.
Lífshlaup mannabarna.
Týnd takmörk,
færa Mammoni fórnir.
 
Rýna í kristalskúlur,
hjúpuð myrkri kuklsins.
Horfa í nafla sína
í leit að guðdómnum. 

..... á strönd.

Í blámerluðum haffleti speglast
eyja drauma minna,
þúsundfaldra í nóttinni.
 Af hafi mildur blær,
ástir á hvítri sandströnd.
Frygð í tunglskininu.
 


Og völvan spáir...

Á vappi um hugan.
Dagar í örmum örvæntingar.
Dómur meðvitaðrar sjálfsásökunar.
Í draumi, ómeðvituð blekking.
Seglum þöndum á vit alls þess lokkafljóðs
er bar fyrir sjónir
í sviphendingu nýs dags.
Og sólin sem skríður úr hýði sínu,
varpar gullnum geislum sínum inn í tilveru mína,
svarta, lokaða.
Opnast fyrir hugskotið,
í huganum tendrast líf.
Söngur, dans, leikræn tjáning.
Í formi ástaróðs,
um mig bylgjast frygð,
eitt augnablik.
Gærdagurinn leið,
í dag nýtt hlutverk.
Og völvan spáir betri tíð.
En er ekki tilbreytingarlaust á vígstöðvunum! 

Hyldýpi......

Dögunin. Mistrað loft. Af festingunni hverfur tunglið, taktu mig.
Berðu mig í draumalandið. Handan skynheimsins.
Í tárvotum dal langana minna, svíf einmanna.
Geng á línu, hyldýpi. Vonir um undankomuleiðir, engar.
Fikra mig áfram, skref fyrir skref. Dáyndis, dýrðardagar að baki.
Laun þessa heims, greidd í næsta.
Lít í dýpið, hugsa, gæti flogið sem örn. 
Svifið, tignarlega, litið yfir sviðið, örstutta stund.
Línan titrar, jafnvægið brenglast, ramba,
næ valdi smástund, svo eins og allt gufi upp.
Dett, dett, þvílík tilfinning.
Flug mitt tekur fljótt af! 

Hægð.

Því andrúm mitt
einkennist af hægð.
Það tekur langan tíma
fyrir tré mitt að
fella laufin.
Og í hægð sinni
þau falla eitt af
öðru til jarðar.
Mynda nýjan jarðveg
hugmynda.
Tilfinningarík í blæbrigðum
sínum og litum.
Fjölþættar hugmyndir
munu af þeim spretta.
Morgunsöngur lífs míns
er lauf trés míns falla
í hljóðri hljómkviðu til
nýs upphafs. 

Gömul minni.

Hin taumlausa neysla.
Leitin að fullnægju
sálarinnar.
 
Titrandi þráður tilveru minnar -
að bresta.
 
Sál mín logar - funi ofsans.
 
Löngun sem teygjir sig
í átt að hæðum
brjálseminnar.
 
Opnast sem blóm -
breiða úr sér
og teyga sólina. 
 
----------------------------------------------------------------------------
 
 
Það er svo hljótt
í nóttinni,
þegar hverf frá draumnum
um þig.
 
Finn ilm þinn
umvefja mig.
 
Höfgi ástarbáls þíns
brennur enn á holdi. 
 
 

Tíminn líður hjá...

Stundaglas tímans framundan.
Situr við gluggann og skynjar tímann
er hann líður hjá ósnertur.
Horfir á sjónvarp, ferð á kvikmyndahús, 
horfir á tilbúið líf.
Já, horfir og lest um lífið.
Lætur þér nægja að frétta af gangi mála.
Situr hjá og hugleiðir.  

Ekkert bærist í
návist þinni!


Í forsögulegum draumi.

Hún horfir á mig í gegnum
tvílráðan hug sinn.
Löng augnatillit.
Fjaðurmagnaðar hreyfingar,
tígrisdýr - svartur Pardus - nóttin,
leikvöllur drauma.
 Umvafinn lostanum - eimpípur blása.
Hin langa þrá - uppfyllingin -
draumur sem verður.
Rauðar perlur - óskir sem rætast
í drifhvítri verundinni.
Dísir á hlaupum í skógi
forneskjunnar,
ná sambandi í draumum. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband