Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Minnisglöp.....

Burt sveif úr minni
mynd mín af þér.
Þú gleymd ert mér,
ég einnig þér. 

......nærvera

Hunangmjúk nærvera þín
í huga mér.
 
Birtingarmynd hinnar æðstu
tignar og náðar.
 
Fölskvalaus gleði augna þinna.
Augu sem mæta mínum
í mannfjöldanum.
 
Oft leitað langt yfir skammt,
en undir niðri býr sannleikur,
sannleikur úr djúpi aldanna,
uppsöfnuð viska.
 
Leiðarstef til framtíðar. 

Orðfang....

Orð sem skreppa úr hugarfylgsninu.
Út í víðfeðmi geimsins.
Fanga svo aftur í net
hugsana minna og raða
upp í nýtt litróf,
nýjan glóandi texta. 

"Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna" ??

Hef oft velt fyrir mér hlutverki "Sameinuðu Þjóðanna".
Oftlega hafa ákvarðanir og athafnir þessarar stofnunar valdið manni
heilabrotum um tilganginn.
Rétt eins og friðargæslusveitir stofnunarinnar virðast algerlega
gagnslaust fyrirbrigði.
Og hverskonar lýðræði er það hjá stofnun sem að er grundvölluð á,
(að því er ég best veit) að stuðla að friði og lýðræði í heiminum,
en er svo með "Öryggisráð" þar sem eistök ríki geta komið í veg
lýðræðisumbætur og mannréttindi í öðrum ríkjum ef þeim býður
svo við að horfa.

Þess utan sýnist mér ekki mikill munur á Bush fyrrverandi forseta
og Obama núverandi forseta Bandaríkjana, svona kannski eins og
sitthvor hliðin á sama peningnum.


mbl.is Obama beitir neitunarvaldi í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegferð......

Löng orð í huga ná hálfvegis
þá leið sem fyrir liggur að
láta að baki í fyrsta áfanga.
 
Mín löngun nær í hæðir þrjár
með hjálp frá þér sem
ert mér leiðarljós.
 
Í ljósi þeirrar reynslu sem að
baki liggur, en liggur ei fyrir
hunda og manna fótum.
Á götu sem grýtt
hefur verið á köflum.
 
Kaflaskipt veröld á enn
hraðari ferð til nýrra tíma.
 
Er blóm viskunnar 
opnar sig! 

Draumar....

Draumar
sendir í pósti
framtíðarinnar
á næsta leiti! 

Tálsýn.....

Drungi í höfði mér
hugsunin splundrast
inn í óravíðáttuna!
 
Tilveran hlær og skopast.
Teymir mig á
asnaeyrunum.
 
Sýnir mér myndir,
bregður upp fallegri sýn,
aðeins til að
myrkva hana á ný!
 
Lagleg tálsýn mín,
leiðir mig í annan heim inn.
Veröld sem snýr fallegri
ásjónu sinni að mér! 

Allumlykjandi hagvöxtur....eða ekki?

Er veröldin grá með bláum röndum,
upplýst neonskilti í húminu.
Síðustu dreggjar alvöru kaffisins hverfa úr minni.
Angist mín kannski ástæðulaus, nýr framfaratími í uppsiglingu.
Hagvöxtur hugans, súluritin svífa í hæðir,
kappsamleg framleiðsla í viti firrtum heimi.
Og menn segja bara; hvaða blekbull er þetta sem vellur hér um
allar koppagrundir?
Hvergi friður fyrir lausnurum heimsins.
Menn sem ætla að leysa allan vanda með prósa og
angurværum ljóðum um ástina.
En ekkert skal stöðva hagvöxtin,
framleiðum fram í rauðan dauðann. 

Skemmtun!

Gæti hafa gerst á kvöldi svipuðu því sem nú, stormur, rigning, slydda.
Reykjavík fyrir hartnær tveimur áratugum......
 
Skemmtun.
 
Skrýðist hempu blekkingarinnar. Set upp upp eina af hinum liztitilegu grímum.
Helli í mig miði, svo talandinn verði sannfærandi.
Reyni að sýna í augunum ástleitinn bjarma, logandi órar!
Stenka á mig rakspíra "Passion". Pússa skóna, gleymi ekki að konur,
alvöru konur líta á skóna.
Fínar buxur, skyrta í stíl, silkibindi, töff leðurjakki.
Svalur gæi! Helli í mig meiri miði.
Passaðu þig strákur (!) konur líta ekki á slefandi fulla bjána,
hversu flottir sem þeir eru í tauinu.
Rigning, tek leigubíl, beint á veiðilendur hugaróranna.
Biðröð, mjög löng biðröð, stend úti við götu, troðningur í röðinni,
ýtt harkalega við mér, hrasa út á götu, næstum í veg fyrir bíl.
Bílstjórinn rétt nær að sveigja hjá, en æ nei, pollur, gusurnar ganga yfir mig,
rennandi, upp úr - niður úr, öskra!
Öll röðin beljast um í hlátrasköllum, þvílíkt ástand, rölti heim,
sjálfsvirðingu rúin.
Ó, þvílík útreið, þvílíkt kvöld! 
 



......um sólu

Löngun í himnaríkishæðir
í einu hendingskasti.
Hverfast í spuna fullnægjunnar.
Sökkva í haf óendanleikans.
Koma aldrei aftur.
Hverfa á braut um sólu hvata! 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband