Færsluflokkur: Ljóð

Mánageislar...............upplýst kennd.

Mánageislarnir smjúga letilega gegnum þykkni skýjanna.
Í huga mínum fer fram uppgjör við hið gamla lífseiga en úr sér gengna siðferismat, siðferðismat lágstéttarmannsins, blindingslega þjónkun við ráðandi fjármálamógula, botnlaust strit fyrir smáeyri. Uppgjör við meint menntunarleysi, minnst gatna sem ferðast hefur verið eftir til gagns og oft gamans, aðrar götur en hinn marglofaði orðum skrýddi menntavegur.
Lesvegurinn gegnum orðskrúð, marglit ljóð, prósa stóran sterkan, liðlegan útrennandi með snúnu tvisti og fallega máluðum sviðsmyndum, hyldjúpum með lítilli týru í niðadimmum skúmaskotum, klífandi upp úr holunni, með stefnu á fjallið, til munkanna með ómfögru möntrurnar, til að komast loks í nánd við guðdóminn ~ hið innra.

Hin vaknandi vitund breiðir úr sér, lýsist upp eins og dögun hinna nýju tíma komandi og ástin umvefur allt.

©Steinart


Gamalt fannfergi..................

Endurminning tengd snjó, fannfergi og myrkri en þó svo mögnuðum tilfinningum æskufólks í verstöð á landsbyggðinni þegar allt virtist geta orðið ef vildir..........

Í grandvarri íhygli hugsanlegrar gjörðar um það bil er allt var að falla í ljúfa löð, augnlokin farin að síga ískyggilega, uppáhaldslagið við að klárast, vangadansinn ljúf nærvera, yrði næsta lag innsigli frekari kynna, myndu töfrarnir kannski leysast upp eins og þetta partý, yrði stígið út í hríðina, skaflarnir troðnir, dröslast upp eyrina í einsemd, eða mætti ekki lauma einu hugljúfu lagi til á fóninn, freista þess að heilla draumadísina með lipurri danslist og fögrum orðum hvísluðum í eyra, sigla síðan burtu í fjarlæg lönd, lesa ávexti af trjám, lifa fyrir líðandi stund.......................

©Steinart


Angurljóð

Blátt fellur regnið
í gegnum sál mína.

Sáldrast snjódrífan
að rótum hjarta míns.

Angurværir tónar
mýkja skynjun mína
og fleytir huga mínum
til þín, ástin mín.

©Steinart


...........ferðalag

.................................ferðalag

Ferðast um á fagurofnu draumteppi.
Ferðast um æðarkerfi þjóðarlíkamans.
Ferðast um í ranghugmyndum almúgans.
Ferðast um í vagni vitundarvakningarinnar.
Ferðast um í alsælu tilfinninga minna.
Ferðast um samtvinnaður vinu minni.
Ferðast um með sannleiksleitendum.
Ferðast um með hinum friðelskandi.
Ferðast um í sjálfum mér, því lífið er ferðalag.

©Steinart


Vitundarhugsanir.........

Hugsanir í langvinnri vinnslu, leitandi að hinni frambærilegustu lausn, lausn sem hefur mig upp yfir hina jarðnesku sterílu vanahugsun og hegðun.
Brotthlaup úr faðmi hins viðtekna norms, opna sálu mína, hleypa fugli frelsisvitundar minnar frjálsum úr búri sínu.
Svífa í heiðríkju hinnar komandi vitundarvakningar, syngja söngva frelsis, lofa hina skýru sjálfsvitund. Opna faðminn, gefa og þiggja hina algeru ást, ástina til allrar vitundar, hvaða formi sem hún birtir sig.
------------------------------------------------------------

©Steinart


Óminni.........

Hugsa til þín ástin mín, sem sveikst sáttmála okkar, lagðir í ferðina án mín, stakkst þér inn í óminnið, þú kvaddir ekki, bréfið sem skildir eftir, torræð gáta sem ekki hefi leyst enn, við gátum setið löngum stundum yfir skrýtnum þrautum og vorum ansi lunkin orðin, en nú sit ég og reyni við gátuna um hvarf þitt inn í óminnið, ferðina sem ætluðum saman, hönd í hönd eins og líf okkar hafði verið, með tár á hvarmi rýni í síðustu og mikilvægustu skilaboð þín, en skil ekki, pappírinn gegnvættur tárum mínum, blekið lekur til, munstur sem aðeins ljær textanum aukið torræði, brýt heilann, alveg mát, líf okkar á ystu nöf, á mörkum hins viðtekna, þó heldur í heimi tilraunarinnar um hina vitundarvíkkandi alsælu, yfir strikið en komum þó alltaf aftur, en nú er sál þín komin í aðra vídd, kem á eftir þér í hljóðri nóttinni þegar upp rennur nýtt tungl, kem í faðm þinn hlýjan og mjúkan, til þín ástin mín.

©Steinart


Trú. II

Því trúin er eitt andlegt afl.
Hittir ekki alla fyrir jafnt.
Margan refilstiginn ráfum
fyrr en við sjáum ljósið bjart.

Margur leitar um langan veg,
að lífsins yndi, andans makt.
En í hjarta voru er það ljóst,
að ástin hreina er oss allt.

©Steinart


tíðarprósi............

Hvers er maður megnugur þegar taktur lífsins hefur hægst og manns helsta nautn er svefninn samneyti við hitt kynið hverfandi hvílubrögðin að gleymast tilfinningalegur samruni tveggja sálna sem berast um í stuttri eilífðinni sem þó hangir á bláþræði komandi heimskreppu ofan í kaupið eins og það gerist best á eyrinni og karlarnir stungu saman nefjum hímandi undir veggjum bryggjuhúsanna forðum austur á landi í kreppunni milli stríða á annari öld allir sem einn með hatta flestir þó með sixpensara biðu þess að eftir þeirra kröftum væri kallað til lestunar eða losunar á einum eða öðrum dalli hver hefði lukkuna með sér í dag heima biðu börnin ekki sveltandi en ekkert sældarlíf á þeim tímum síðan kom herinn Breskur og veitti nýju lífi inn í hversdaginn brátt tók hagur að vænkast fólk í hópum á mölina sótti nýjan stíl dans á Borginni ungar stúlkur sóttust í swing með dátum fyrst breskum svo amerískum tyggjókúlur blásnar silkisokkar og fínerí ástandið hafði stungið sér niður í littlu borgina við sundin nú lýsir friðarsúla Lennons beint upp í himnaríki hvar ríkir einmitt hin stóíska ró en týndur er sálarfriður vegvilltra manna sem leita lausna við ótta sínum stöðugum um lok heimsins og svart framhald eiverunnar hvar ekkert lengur hrærist en Bond vildi hristann ekki hrærðann Martini og aðal skvísuna í kaupbæti heyrst hefur að hann sé nú að safna skeggi fyrir næstu svaðilför á lendur milliríkjaviðskipta og eða brjálaðra vísindamanna ó hve yndislega og háttvíslega hann hefur oss bjargað fyrir hornin fimm dimmalimm nema þessar lendur séu frekar lendar hinna íðilfögru kvenna sem vilja klekkja á honum hafa hann undir á einn eða annan hátt svo sem velkunnugt ætti að vera er hann einmitt Íslandsættaður Kanadamaður enda ráðagóður með afbrigðum rétt eins og aðrir nýrri útrásarvíkingar sem sigldu litla eylandið í kaf já bólakaf enda var þetta ástand allt ein allsherjar bóla en nú bólar ekkert á endurgreiðslum hins illa fengna fés ættum að safna fyrir ráðningu frænda vors Bonds James að taka í lurginn á þessum peyjum snúa þeim á hvolf sjá hvort ekki hristist úr vösum þeirra smáklink væri þá allavega hægt að dunda sér við hið saklausa ungdóms fjárhættuspil hark en munum við ekki bara harka af okkur eins og fyrri daginn og kveða við raust þetta reddast allt því nú getum við í sátt borgað skuldir eins og Icesafe og allir verða svo kátir því við erum svo heiðarleg og megum ekki vamm okkar vita þó veit engin hvert allir tölvupeningarnir fóru enda margt Matrixið sem skilning brestur til að fylgja eftir út í paradísareyjarnar hvar smjör drýpur og sólin vermir kalda væringjapilta úr norðrinu frá eyjunni sem sumir kannast við að sé eyja guðs aðrir Ultima Thule og enn aðrir syngja um Ísland farsældar Frón þó ekki sé hátt kveðinn bragur braggast munum hratt og vel er fram líða stundir því sólin vermir jafnt þá snauðu sem hina ríku og lífið er þrátt fyrir allt svo skemmtilega margslungið að ekki er annað hægt en syngja við hvurn sinn fingur og af fingrum fram spila gleðibrag.

Tónfórn.

Ungsveinar þyrpast að sviðinu.
Teiga af áfergju í sig
hljómljóðið.
Dáleiddir í höfgu
andrúmi söngsins.
Músan breiðir út
töfrateppið
svífur með sveimhuganna
um tónhimnaríkið.
Ber þá að altari
sönglistarinnar
þar sem þeir
auðmjúkir
færa fórn sína. 
 

Tími..mældur......

Á rölti um bæinn í leit að
tímamælitæki á hendi.
Hendist milli búða í leit að
liðnum tíma ~ sjálftrekktum.
Verðið sveiflast eins og pendúll
í fínu stofustássi fyrri tíma ~
veggklukkunni.
Viðbrögð óræð við spurn minni,
rétt eins og eftirvæntingin um
hvort við næsta slátt klukkunnar
gægist KúKú fuglinn út. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband