...með blænum

Hún kemur með blænum, utan af sjónum,
víman, smygluð vara af kaupskipi
martraðarinnar.
Límist við, skríður, sprettir upp
heilanum, hleypir löngununum út,
æsir, tryllir, tekur flugið á lendur
framtíðarinnar, í óútskýranlegum
litaafbrigðum. 

Gamlir prósar úr skúffunni!

Og tíminn líður hjá,
rétt eins og fljótið.
Rennur í lygnu, og allt í einu
steypist það um gljúfrin.
Ást og væntingar, löngun og veruleiki.
Skin sólar í huganum,
lýsir upp skúmaskotin.
Hrekur drauga einsemdar og brjálæðis
fram í sviðsljósið,
hvar þeir stíga dans,
léttan ræl.
Diskóbyltingin liðinn hjá,
rólegur zambataktur tætir upp kynórana.
Æfintýri í nóttinni!

 
 
-------------------------------------------------------------
------------------------------------------------------------- 
 
Spyrst út um hagi
þína í voða veröld.
Þegar tjald er dregið fyrir huga
mitt í  blóma þínum.
Þegar hugmyndir helst fæðast,
þroskinn að skila sér.
En þá hverfa í heim
tilhæfulausan, geggjaðan.
Skref fyrir skref í áttina að
algleymi hugóranna. 

Sólris.... (Prósi)

Minnist tíma þá allt lék í lyndi,
eindrægni ríkti og fuglar sungu á grein.
Nú greinist allt í aðrar áttir og vart að maður
átti sig á nokkrum hlut sem í hlutarins eðli
er ekki svo óeðlilegt miðað við að allt var
vitlaust greint í upphafi.
Það voru ekki fuglar sem sungu á stakri grein
heldur greinilega tenórar af Guðs náð og friði
sem brýndu raddir sínar við upprisu sólar
í landi drauma minna.......... 
 

Borga eða ekki Icesave!!!

Vil meina að við almenningur á Íslandi höfum ekki nokkra ástæðu til að borga þessa skuld og berum enga ábyrgð á þessu máli. Algert klúður stjórnmálamanna sem sátu við völd við hrunið og lofuðu að borga án umhugsunar, ekki hafa núverandi ráðamenn þjóðarinnar heldur staðið sig nokkuð betur við lausn málsins.

 


mbl.is Segir Icesavevinnu ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKYNVÍKKUN! (Prósi)

Skynvíkkun.
Gengur um dyr, yfir í hina víddina.
Minni sem heyrði í texta frá sjöunda áratugnum.
Fólk gekk um í leiðslu, söng um frið, blómum skrýtt.
Andóf gegn stríðsrekstri, svo féll hreyfingin á eigin bragði.
Of mikið dóp, rokk og ról.
Í dag er þetta fólk sú kynslóð sem lagði hornsteininn að
hinum mikla "uppakúltúr".
Gleymdi byltingunni sinni, gafst upp á að breyta kerfinu
og sameinaðist því.
Ó, þessar litlu sætu byltingar, unglingar að stíga fyrsu
skrefin inn í fullorðinsárin.
 
Eftir stendur sýrutónlistin, frægar sögur af rokkgoðum
sem lifðu hátt, stutt og brjálæðislega.
Dóu á niðurfallinu.
Jú, settu X í söguna, hafa verið tilefni til margra heilabrota
um tilgang og gildi lífsins.
Til að taka t.d. hvort er betra að lifa lengi og viðburðarlaust,
eða hratt og hátt í einum viðburðarríkum blossa! 

Draumdofi.......

Á andartakinu þegar maður telur sér allt fært.
Hugsun sem slær niður, allt í einu óforvarandis. 
Lítur til baka, mörg ár aftur, þegar æskan var
þröskuldurinn sem stöðvaði draumana.
 
En nú eru æskuárin að baki.
Draumarnir aðrir, en eiga sammerk að rætast ekki.
Lífið leikur annað leikrit, eða er ég staddur í annari bók!
 
Einhver misskilningur í gangi, leiðin um skóginn er dimm.
Vitinn á klettasnösinni, villuljós!
Umkringd skrælingjalýð sem reynir að tæla mig, þig,
hafa af okkur gott, fleygja oss síðan í hafið.
 
Draumaveröldin, aðeins blossi í vitfirrtum heimi.
Tælir okkur áfram, um dimman dal hversdagsins.
Notum öll meðul til að deyfa hugann, lifa af daginn.
Sveiflumst á milli tilfinninga, glöð, döpur.
 
Grátum draumana, sem aldrei rætast.
Leitin stendur yfir, finna punkt í tilverunni.
Glata, sýta, gleyma draumunum.
Lifa draumlaus, steinsteypukastalarnir
þrengja að, byrgja sýn.
 
Náttúran brátt eitthvað sem lest um í fornum bókum.
Úr tengslum, aðeins þegn á leikvelli tilbúinna þarfa.
Bíður dauðans, í von um að þá fyrst byrji lífið! 

Týnd...

Sól á lofti - þúsund ár.
Lífshlaup mannabarna.
Týnd takmörk,
færa Mammoni fórnir.
 
Rýna í kristalskúlur,
hjúpuð myrkri kuklsins.
Horfa í nafla sína
í leit að guðdómnum. 

..... á strönd.

Í blámerluðum haffleti speglast
eyja drauma minna,
þúsundfaldra í nóttinni.
 Af hafi mildur blær,
ástir á hvítri sandströnd.
Frygð í tunglskininu.
 


Kolefnisskattar og önnur óáran!

Hin útbreidda skoðun um hlýnun jarðar af völdum útblásturs koltvísýrings (CO2) og áhrifin af þeirri mengun á veðurfar, bráðnun jökla o.s.f.v. er hún rétt!
Öll viðurkennum við að sólin er lífgjafi jarðarinnar og án hennar þrifist ekki það líf sem við þekkjum.
Eins vitum við að tunglið stjórnar sjávarföllum og hefur einnig oft undarleg áhrif á okkur mennina.
Færri vita líklega að bæði á suðurpólnum og norðurpólnum eru staðbundnir vindar sem blása að staðaldri.
Þegar þessir þrír meginþættir eru skoðaðir í samhengi má sjá fyrir hvernig veðrið verður, jafnvel ár fram í tímann. Þetta hefur verið sýnt fram á af; Piers Corbyn veðurfræðingi / stjörnufræðingi og samstarfsmönnum hans hjá "WeatherAction"
Þeir voru t.d. búnir að spá fyrir um aftakaveðrið og snjóþyngslin í New York nú um jólin eins um flóðin í Ástralíu nú í kringum áramótin og það er ár síðan þeir spáðu þessu!
Það sem meðal annars hefur haft áhrif á að flæðir í Ástralíu er nýafstaðinn sólmyrkvi 4. jan. 2011 / þetta var ekki almyrkvi á sólu. En þetta er það sem er að hafa áhrif á veðrakerfin hjá okkur meðal annars.
Samspil þessara þátta (sól, tungl, pólarnir) hafa megináhrif  á veðurkerfin hér á jörðu samkvæmt Corbyn og félögum hans.
En hvað er þá í gangi hjá umhverfisverndarsinnum, umhverfisstofnunum og ýmsum vísindamönnum, sem sumir hverjir eru að verða uppvísir að því að falsa t.d. hitatölur o.f.l.
Það er vissulega gífurlegir peningar í húfi fyrir ýmsa, vísindamenn, umhverfissamtök, græn samtök allskyns og ekki síst stjórnvöld. Þvílík himnasending fyrir stjórnvöld, það er hægt að búa til margskonar skatta á grundvelli umhverfisverndar eins og einmitt er að gerast hér á Íslandi.
Ég er vissulega hlynntur umhverfisvernd og tel að við mættum gera margt í þeim efnum en við skulum hafa hlutina á hreinu. Það er ólíklega vegna útblásturs eingöngu sem ætluð hlýnun á sér stað.
Leitumst við að finna bestu leiðirnar til að menga sem minnst og berum meiri virðingu fyrir jörðinni, hún er okkar eina athvarf. S.s. það er ekki endilega rétt það sem sagt er um ástæður hlýnunar jarðarinnar sem jafnvel er alls ekki að hlýna heldur þvert á móti að kólna!

Og völvan spáir...

Á vappi um hugan.
Dagar í örmum örvæntingar.
Dómur meðvitaðrar sjálfsásökunar.
Í draumi, ómeðvituð blekking.
Seglum þöndum á vit alls þess lokkafljóðs
er bar fyrir sjónir
í sviphendingu nýs dags.
Og sólin sem skríður úr hýði sínu,
varpar gullnum geislum sínum inn í tilveru mína,
svarta, lokaða.
Opnast fyrir hugskotið,
í huganum tendrast líf.
Söngur, dans, leikræn tjáning.
Í formi ástaróðs,
um mig bylgjast frygð,
eitt augnablik.
Gærdagurinn leið,
í dag nýtt hlutverk.
Og völvan spáir betri tíð.
En er ekki tilbreytingarlaust á vígstöðvunum! 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband