Færsluflokkur: Ljóð

Kaffistofuspáin.

Í svarbrúnni kaffiiðunni speglast líf mitt.
Einskisnýt er sú sýn segi ég!
Spá mín byggir á bollaleggingum, þurrir hringir kaffikorgs,
lýsa því að fyrir dyrum standi ferð.
Jæja segi ég, yfir í annan heim (?).
Hún lítur á mig sposk á svip, ó nei, sú ferð er ekki í þessum bolla.
En ef þú fengir þér Expresso gæti verið vísbending!
Hver er þá ferðin spyr ég ráðvilltur.
Ferð þín verður ekki af venjulegum toga, þessi ferð verður sú 
sem þig hefur dreymt um að fara.
Ég lýsist upp eins og 100 kerta pera, svo að í hálfrökkvaðri
kaffistofunni verður skellibjart eitt augnablik.
Fastakúnnarnir kinka kolli, spákerlingin okkar hefur aldeilis
kveikt í þessum, hugsa þeir.
Nú og hvað með þessa ferð spyr ég óþolinmóður.
Já, segir hún ánægð með sjálfa sig.
Þessa ferð, ferð þú í huganum.
Þér mun verða ljós tilgangur þinn í þessu jarðlífi,
þér mun opinberast hvernig þér verður unnt að verða
hamingjusamur og láta gott af þér leiða.
Þér mun verða ljóst hver mun standa þér við hlið í lífinu, ástin þín.
Um mig fer sælukenndur hrollur, svo borðið skelfur.
Enn líta fastakúnnarnir upp og glotta.
Hvað sérð þú fleira spyr ég ákafur.
Þetta er allt, segir spákonan, býr sig undir að fara.
Róleg, róleg segi ég, hvenær verður þessi ferð?
Innan skamms segir hún kankvís, pakkar saman spábollum og spilum og fer.
Ég kveiki í sígarettu, panta meira kaffi, er allur á nálum,
sekk í dagdraumanna. 

Kúreki á ferð um .........................

Kúreki kemur ríðandi yfir sléttuna, eða örkina sem sagan er skráð á.
Stöðvast skyndilega í blekdropa.
Júhú olía! Öskrar hann upp yfir sig, endasendist í sjöunda himinn.
Hallar sér aftur í hnakknum, dreymir um ríkidæmi sitt komandi.
Er hann rankar við sér, sjá! Komin olíudæla mitt í blekið (olíuna) og búið
að girða umhverfis með gaddavír.
Lærdómur: Gleym þér ekki í draumheimum.
 
Svo hann heldur á stað á ný, kemur að þorpi mitt í mörkinni.
Fer af baki, teymir fák sinn, aðalgatan ansi tómleg.
Kemur að kránni, sveiflar upp dyrunum, úps - horfir beint út á sléttuna.
Hvað nú, kominn inn í gamla leikmynd úr Hollywoodskum vestra!
Þetta gengur ekki lengur hugsar hann, dregur upp úr hnakktösku
sinni farsíma. Pantar þyrilvængju.
Sleppir hestinum lausum.
Þetta ævintýri skal ekki gantast með mig lengur.
Heim, held heim, þar sem allt er víst. 

.........hugauðgi

Hungur í hugauðgi - ekkert bærist.
Himininn heldur sínum línum,
opnast ekki inní aðrar víddir.
Stöðugleiki sem aldrei fyrr.
Gárast ei frumleg alda í heimi uppátekta.
 
Nýjar tilfinningar í sókn,
rauðleitur þráður blekkinga.
Á altari í hofi fegurðar, fórnir að gömlum sið.
Útlit ákveðið fyrir fjöldann.
 
Alsælan faðmar þig
í speglinum. 

Hressó!

Sú var tíð hér í Reykjavík að ekki var eins gott aðgengi að vínveitingahúsum og er í dag. Man eftir því er við vinirnir reyndum eitt árið allar þær leiðir löglegar sem okkur datt í hug til að geta skemmt okkur í Rvík um páska. Vorum viðloðandi landsbyggðina á þessum árum og þar var ekki þetta vandamál til staðar, yfirleitt í það minnsta eitt eða tvö böll um páskahelgina. En nú vorum við staddir í Rvík, trúlegast flestir í einhverskonar námi. Og páskar og hreinlega allt meira og minna lokað, samt var nú aðeins farið að vera um það að veitingamenn væru að teygja sig eins langt og þeir komust upp með, t.d. um þessa páska var opið á "Hard Rock" í Kringlunni og við þangað. Pöntuðum okkur að borða og að sjálfsögðu viðeigandi vínveitingar, þóttumst nú aldeilis vera búnir að bjarga í það minnsta þessum degi. En viti menn, í hálfnaðri máltíð mæta laganna verðir og loka búllunni, minnir þó að fengjum að ljúka því sem þó vorum byrjaðir á. Á þessum misserum voru veitingamenn að reyna allt hvað þeir gátu til að mæta betur auknum kröfum almennings og ferðamanna um aukna þjónustu. Eitt var það t.d. þegar verið var að reyna að fá leyfi til að afgreiða áfengi út eins og tíðkaðist erlendis og við þekkjum vel og njótum í dag, þá voru veitingamennirnir á "Hressó" fyrstir til, enda bjuggu þeir að þessum fína innilukta garði. En þeir þjófstörtuðu, ekki fengust leyfi fyrr en eftir töluvert stímabrak í ráðuneytunum. Við vinirnir vorum líka stoppaðir af í skemmtuninni þar af laganna vörðum. Og í tilefni af þessu öllu varð til þetta "ljóð" Hressó! Til gamans má geta að ári seinna var einmitt efnt til ljóðasamkeppni á vegum veitingahússins, og átti einmitt að fjalla um það á einn eða annan hátt. Þessi ljóðasmíð rataði þó aldrei þangað.

 

Hressó!

 

Í garðinum, umluktum húsum.

  Síðsumarsól, kaffi, te, eða var það öl.

Tilfinning fyrir nýrri andakt í gömlu veitingahúsi.

Flækjur lagabálkanna, má eða má ekki,

drekka öl undir berum himni?

  Sitja við gluggann með ljúfan kaffi,

horfa á mannlíf Austurstrætis.

Höfuð kýld niður í bringu,

veðurhamur vetrarins, eykur hraðann.

Fólk á hlaupum, komast í skjól, á Hressó um jól.

  Helgi, tættir tónar sleppa út, en ekki fleiri inn,

biðröð í rigningunni.

Hið dagfarsprúða kaffihús skiptir um klæði.

Hart rokk tekur völdin, víman vex.

  Páskar, nýir tímar, kaffi og kökur alla helgina.

Liðast lífið á snigilhraða trúarinnar.

  Já, liðnir ljúfir tímar

    á kaffihúsi í Reykjavík. 


Skilningur...

Þrumulík hugsun, rífur sig í gegnum hugann.
Gegnvætt dauðakulda,
andartaksheimsendis.
Hungrið í skilning,
alheimsviskuna gagnsæu.
Skýst upp á yfirborð þekkingarvatnsins,
þekkir ekki sundtökin.
Sekkur í óminnið,
sameinast fjöldanum. 

Hverfa burt..........

Hverfa burt úr fjöldanum, hverfa í fámennið.

Spila ný lög á munnhörpu langanna minna.

Sitja úti fyrir "kastala" mínum, horfa á fjöllin, sjóinn.

Sjá þegar bátar koma úr róðri, drekka kaffi úr fanti,

punkta á blað hugsanir mínar er þær flögra hjá.

Slíta úr mér einmannakenndina. 


Svengd!

"Næringarskortur

í garði hugsanna minna." 


DRAUMSEGL!

Merlandi hafflötur í huga mér.

Sólin skín úr óravíðáttunni.

Sigli minn sjó, einn á báti.

Þanin segl hugsanna minna,

feykja mér um,

veraldir drauma. 


Brátt flýg...........

Brátt flýg ég í aðra geima.
Verð ekki lengur heima.
Hætti að láta mig dreyma.
Læt ekkert mig lengur teyma.
Ætla mér að reyna,
þér að gleyma.

Draumsigling!

Mín sæng útbreidd, til þerris,

bylgjast í golunni.

Löng er sú nótt sem frá mér fer.

Blindir draumar í skini tungls

í fyllingu.

 

Stjörnuþokur, minn þjóðvegur,

sigli um  geiminn

á draumfleyi númer þrjú.

Skoðunarferð um óskrifaðar

sögur mannkynsins.

Forskot á tímann!

Í fimmtu draumhöll býr

undurfögur geimmey,

tætir og tryllir

veikgeðja mann.

 

Af geimástum fer engum sögum.

Leyndarmál í dósum, keypt í sjálfsölum,

hundrað krónu leyndó. 

"Menningin" breiðist út um víðan geim.

Nú sný ég aftur heim. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband