Færsluflokkur: Bloggar

Veraldarvefurinn

Það er yndislegt hverju er hægt að koma í kring með þessu verkfæri "Veraldarvefnum"
Vonandi verður hann ekki tekinn yfir af einhverjum stofnunun eins og útlit er fyrir að reynt verði,
vefurinn verður að vera frjáls!
Fann með hjálp vefsins persónu sem hef ekki haft spurnir af í hartnær tuttugu og fimm ár,
frábært, skemmtilega óvænt jólagjöf.

Gleðilega hátíð


Og svefninn rofinn!

Hef það sterklega á tilfinningunni að vorir fulltrúar á Alþingi séu að reyna að sjá við stjórnlagaþinginu. Þ.e.a.s. vera búin að smíða ný frumvörp og verklagsreglur áður en stjórnlagaþingið kemur saman. T.d. lagði forseti Alþingis fram í dag frumvarp sem breyta á verklagi og ábyrgð ráðherra og óbreyttra á löggjafarsamkundunni. Verður kannski lítið eftir fyrir stjórnlagaþingið að moða úr! Miklu umstangi hefði mátt komast hjá ef þingmenn okkar hefðu tekið sig fyrr saman í andlitinu, hafa haft til þess rúm sextíu og fimm ár. En að sjálfsögðu ber að fagna því ef þjóðkjörnir fulltrúar okkar á Alþingi vakna af "Þyrnirósarsvefni" sínum. Húrra, húrra, húrra!!!

Vegatollar!

Held við ættum frekar að nota vegina eins og þeir eru í dag heldur en að breikka og byggja nýja. Í það minnsta er ég ekki hrifin af því að þurfa að borga  vegtolla á öllum leiðum úr og í borgina. Hefði haldið að nóg væri komið af skattheimtu í eldsneytisgjöldum, bifreiðargjöldum og bráðlega kolefnasköttum. Á að skattleggja okkur svo mikið að endirinn verði sá að við munum ekki geta ferðast um landið okkar um lengri eða skemmri veg okkur til ánægju vegna kostnaðar. Hvað með þá sem búa í næsta nágrenni höfuðborgarinnar og sækja þangað vinnu, t.d. sá sem býr á Selfossi og sækir vinnu til Rvíkur, hann mun þurfa að borga sjöhundruð krónur á degi hverjum í vegtolla. Nei, þetta getur ekki gengið, nóg er komið af vitleysunni hér þó þetta bætist ekki við! 

 

 


Líf í geimnum.....

Sérkennileg eftirvænting sem "NASA" byggði upp með tilkynningu í gær (1. des.)
Gáfu sterklega í skyn að væru búnir að finna vísbendingu um líf á öðrum hnöttum,
eða í það minnsta líf í geimnum. Og eins og segir svo skemmtilega;
"Fíllinn tók jóðsótt og ------ fæddi mús."
 
Það sem vísindamennienir voru s.s. búnir að uppgötva voru bakteríur sem ekki höfðu
þekkst áður og fundu í einhverjum arsenikpolli í USA.
S.s. hér á móður jörð. 
 
Frábært, miklir skemmtikraftar LoL

Stjórnlagaþing.

Vona að það fólk sem valdist á þetta stjórnlagaþing sé vandanum vaxið.
Er jú með víðtæka menntun og nokkuð blandaður hópur.
En það sem alltaf gerist hér á Íslandi er það að þeir sem eru nokkuð þekktir
úr fjölmiðlum eða fjölmiðlaumræðu fá helst kosningu.
Flestir þessara einstaklinga eru einmitt þekktir á þann hátt.
Auðvitað eru þau ekkert verri fyrir það, en þetta sýnir að við kjósendur erum
frekar löt, því þótt við höfum þ.e.a.s. við sem kusum, farið og valið okkar fulltrúa
þá sýnist mér að ekki hafi endilega verið pælt vel í gegnum málefni og viðhorf
minna þekktra frambjóðenda.
 
Rétt eins og við Alþingiskosningar sýnist mér að þekktu andlitin fái brautargengi,
s.s. eins og iðulega hefur gerst að fyrrum fréttamenn/lesarar hafi flogið inn á þing
eins og ekkert væri sjálfsagðara.
 
Sjálfum tókst mér ekki eða gaf mér ekki nægan tíma til að rýna í alla frambjóðendurna
enda ansi margir, náði þó að velja mér ellefu fulltrúa, aðeins einn af þeim náði kjöri.
 
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu.
Sú stjórnarskrá sem verður vonandi til þarna, hana verður að leggja í dóm þjóðarinnar.
Ekki skal leggja hana fyrir Alþingi, fulltrúum okkar þar er því miður ekki treystandi til að
afgreiða hana frekar en svo margt annað.
 
Óska stjórnlagaþingmönnum alls hins besta, megi þeim lánast vel í
þessu vandasama verki. 
 
 
 

Hvað er satt...........

Skrýtin umræða í gangi í netheimum, þá helst í þeim geira sem fjallar um jaðarmálefni ýmiskonar. T.d. allskyns hugmyndir um ákveðna hópa áhrifamanna sem leynt og ljóst seilast eftir því að stjórna okkur almúganum á allra handa vegu. Þessir hópar og eða samtök eru skipuð fjármálamönnum ýmsum og fulltrúum gamalla ættarvelda.

Nú um stundir er verið að velta fyrir sér að nú innan ekki langs tíma verði sviðsett innrás úr geimnum, að hin mikla aukning umfjöllunar um ferðir ýmissa ókennilegra loftfara víða um heiminn, sé jafnvel aðeins enn einn blekkingarvefurinn. Blekking sem sjórnvöld helstu vestrænna hernaðarvelda og áður nefndir hópar skipuleggja. Hver tilgangurinn er; trúlegast að ná fram enn harðari lögum og reglugerðum til að hefta frelsi almúgans og eiga auðveldara með að stjórna honum. Almenningur mun kalla eftir frekari vernd gegn utanaðkomandi ógn og sjálviljugur afsala sér frelsi sínu. Sama og hefur verið að gerast eftir að hryðjuverkaógnin var tekin til handargagns og blásin út með allskyns blekkingum spunameistara ofangreindra hópa áhrifamanna.

Og nú er Barak Obama  og hirð hans farin til Asíu með tugi herskipa, eins hafa margar lúxussnekkjur auðkýfinga látið úr höfn síðustu daga, um borð öll fjölskyldan og einhverjir vinir með. Verið er að leiða að því líkum að ákveðnir útvaldir séu að koma sér og sínum í skjól áður en einhver "atburður" á sér stað í Bandaríkjunum.

En hvað veit maður, það er svo margt sem skrifað stendur hér, þar og víðar.

Hverju skal trúa! 

 


Stríðsrekstur bandamanna.

Smá hugleiðingar eftir að hafa horft á heimildarmyndina "War Promises" sem gerð er af "NuoViso".

Myndin fjallar að mestu leiti um stríðin í Írak og Afghanistan og aðdraganda þess 9/11 árásina á Tvíburaturnanna. Eða 9/11 sjónarspilið! En það sem er að veltast í mér er notkun flugskeyta og skotfæra, sem gerð eru úr kjarnorkuúrgangi, þ.e.a.s. úrgangi sem leggst til í kjarnorkuverum. Hágeislavirkt efni sem safnast hefur upp í geysilegu magni og engin veit hvað gera skal við. Eitt af því sem einhverjum snillingum datt í hug var að nota þetta í skotfæri og sprengjur, reyndar þarf ekki að vera nein sprengihleðsla í flugskeytum þegar þeim er skotið í t.d. skriðdreka, við samstuðið verður einskonar (kjarnorku)sprenging.

Við þessa sprengingu verður brak þess sem sprengt er og nánasta umhverfi að sjálfsögðu töluvert geislavirkt. Þessi skotfæri hafa verið til í u.m.b. fjörutíu ár. Þau hafa verið notuð af Bandaríkjaher og Natoherjunum í ýmsum stríðsátökum, líklega öllum sem þessir herir hafa tekið þátt í síðustu 15-20 ár.

Þar má nefna t.d. stríðsreksturinn í fyrrum Júgóslavíu; Írak 1991, Bosnia 1995, Kosovo 1999, Afghanistan 2001-2010, Írak 2003-2010, líklega í Sómalíu og Líbanon líka.

Þegar Bandaríkjaher þóttist ætla að uppræta (drepa) Osama Bin Laden í Tora Bora fjöllunum í Afghanistan vörpuðu þeir ógrynni svona sprengna í fjallendinu, en þarna eru miklir hellar sem talið var að liðsmenn Osama og hann leyndust í. En þarna er líka eitt helsta vatnasvið Afghanistan, meginforði vatns sem notað er til áveitu og neyslu og er nú mengað og geislavirkt.

Áhrif þessarar geislunar er hvítblæði og ýmis önnur krabbamein og ekki síst mikil aukning skelfilega vanskapaðra nýbura og nýburadauði. Varla fara heldur þeir hermenn er umgangast og nota þessi skotfæri varhluta af geisluninni.

Haustið 2008 tóku Sameinuðu Þjóðirnar til atkvæðagreiðslu bann við notkun þessara vopna, 144 ríki samþykktu bann við notkun þeirra, en fjögur ríki beittu neitunarvaldi; Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Ísrael. Svo að enn er verið að nota þessi vopn. Euromil sem eru samtök evrópskra herja hafa fordæmt notkunina en Natoherirnir nota þessi vopn samt enn.

Í Írak eru 18 héruð í nágrenni við Bagdad, Nasiria og Bashra ekki lengur byggileg, en þar áttu sér stað miklar skriðdrekaorustur bæði 1991 og 2003. Flytja þarf fólk af svæðinu en það er í raun of seint, það hefur andað að sér geislavirkninni og neytt mengaðs matar lengi. Fyrir þeim liggur vart annað en deyja vegna þess.

Leiða má að því líkum að í raun sé verið að fremja skipulagt þjóðarmorð bæði í Írak og Afghanistan! 

 

 

 


Fréttamat almennt.

Hef oft velt fyrir mér hvað vaki fyrir fréttastjórum/stjórnum á ljósvakamiðlum sérstaklega, en líka á blöðunum. Í fyrsta fréttatíma sem heyri á morgnana (kl. 06:00) er fyrsta frétt nær án undantekninga um það hve margir féllu í hinu eða þessu stríðinu, slysinu eða meintu hryðjuverkinu síðustu klukkutímana. Á þeim stutta tíma sem liðin er síðan okkur var sagt frá einhverju svipuðu áður en lögðumst til svefns. S.s. fréttamatið virðist vera þannig hjá fréttastjórum/stjórnum að það sem helst geti talist fréttnæmt séu morð og dráp á almenningi og hermönnum. Ekki vil ég gera lítið úr því óréttlæti sem slíkir atburðir eru allajafna, en á okkur líka lifandi að drepa með sífelldum fréttum af slíku. Lífið innifelur líka fallega hluti, góðar fréttir og jákvæðar sem hægt væri að segja frá.Það er fleira fréttnæmt en þau stríð sem ákveðin þjóð heldur úti í nafni lýðræðisumbóta en snúast í raun um allt aðra hluti. Við þurfum ekki á því að halda að fá stöðugar fréttir af þessum hráskinnaleik. Væri ekki nær að líta okkur nær og reyna að vera svolítið jákvæð, ekki veitir okkur af því. Ekki ætlast ég til að við lokum augunum fyrir hörmungunum í heiminum, en tel óþarft að setja þær fréttir ætíð í öndvegi. Þess utan er einkennilegt hvað fréttamat hér á Íslandi er einsleitt, yfirleitt aðeins sagðar frá einni hlið (sjónarhóli). Enda virðist sem allar erlendar fréttir sem sagðar eru hér komi aðeins frá fáum fréttaveitum, og allir fréttamiðlar hér á landi notist við þær sömu! Drögum aðeins úr því neikvæða og aukum hið jákvæða. Grin

Að langa til að tjá sig!

Sting mér hér inn í bloggheima vegna þess að stundum langar mig til að tjá mig og fá þá jafnvel viðbrögð við hugrenningum mínum, sem á stundum geta verið á nokkrum villigötum, fá þá jafnvel leiðréttann minn kúrs.
Eins gæti verið að maður setti inn einhvern gamlan eða nýjan skáldskap úr skúffunni góðu sem virðist vera til hjá flestum Íslendingum.

"Einu sinni, eða var það kannski tvisvar?
Allavega verður allt einu sinni fyrst!
Og þegar einu sinni hefur verið má búast við framhaldi.
Allt fram streymir, kannski ekki alveg endalaust,
en allavega í drjúgan tíma.
Heimur okkar sem er takmarkaður,
allavega takmarkanlegur eftir einstaklingum.
Því allir búa jú í sínum takmarkanlega heimi.
Því enginn nær því að vera takmarkalaus, eða hvað? "


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband