Þrjú högg!

En svo var það  þetta skrýtna, þessi kona

sem kom og þreif hjá mér einu sinni í viku.

Já, ég vissi ekki afhverju, hver hún var eða hvaðan.

Ekki þáði hún laun frá mér, ekki einu sinni kaffibolla.

Alltaf á þriðjudögum, á slaginu eitt,

birtist hún á tröppunum.

Sló þrjú létt en ákveðin högg á dyrnar,

samt hafði ég dyrabjöllu, mikið hljómaspil

og fallegt, en nei, alltaf þrjú létt

ákveðin högg.

Aldrei talaði hún, fyrst þegar hún kom,

já, hvenær var það nú aftur, ----

man það ekki, nokkur ár síðan.

Bank bank bank, ég undrandi, hva ætli bjallan sé biluð!

Stendur hún þarna á tröppunum.

Með kústa, fötur, tuskur, fægilög og bón,

já, hvað það heitir nú alltsaman,

þetta sem konur nota við þrif!

Góðan daginn, sagði ég, benti henni á bjölluhnappinn,

ýtti á hann, jú jú, bjölluhljómurinn

fallegur og tær.

Hún breytti ekki svip, kinkaði aðeins kolli,

rótaði í kápuvasanum, dró upp velkt

pappírssnifsi, rétti mér.

Þegar hafði slétt úr snifsinu, blasti það við mér,

nafnið mitt.

Man það skýrt, leit í augu hennar, grá-fljótandi,

hér-þar, svo óræð, samt eins og svo

viss í sinni sök!

Já, þetta er ég, meinti þá að hún hefði

fundið réttan mann.

Hvað get ég gert fyrir þig?

Hún rétt beraði tennurnar, var það bros,

veit ekki, trúlegast.

Með látbragði sýndi hún manneskju að þrífa,

og þá meina ég "Þrifnað" með stórum staf,

tók upp af tröppunum fötu sína og

tilheyrandi og gekk inn.

Engu ansaði hún spurningum mínum,

aðeins þetta - kannski bros.

Svo, að mér fannst, með eldingarhraða

þreif hún allt hátt og lágt.

Indælt!

Alltaf á þriðjudögum á slaginu eitt,

þrjú létt en ákveðin högg.

Hver hún var, hvaðan, hver sendi hana,

borgaði laun, það veit ég ekki.

En þetta var sannarlega indælt. 

 

    

 


Lítið yrki.

Vertu mér samferða í

kyrrðinni sem umlykur

hjarta mitt.

Gangtu með mér í

skógarlundum fegurðarinnar.

Horfðu með mér til himins,

sjá óskastjörnur brosa.

Sigldu með mér hafið

til annara heima.

Fylg mér á ókunnum stígum,

gegnum nýtt landslag.

Sáum fræjum,

uppskerum ástina.

Höldumst í hendur,

sjáum tímann líða hjá.


Fréttamat almennt.

Hef oft velt fyrir mér hvað vaki fyrir fréttastjórum/stjórnum á ljósvakamiðlum sérstaklega, en líka á blöðunum. Í fyrsta fréttatíma sem heyri á morgnana (kl. 06:00) er fyrsta frétt nær án undantekninga um það hve margir féllu í hinu eða þessu stríðinu, slysinu eða meintu hryðjuverkinu síðustu klukkutímana. Á þeim stutta tíma sem liðin er síðan okkur var sagt frá einhverju svipuðu áður en lögðumst til svefns. S.s. fréttamatið virðist vera þannig hjá fréttastjórum/stjórnum að það sem helst geti talist fréttnæmt séu morð og dráp á almenningi og hermönnum. Ekki vil ég gera lítið úr því óréttlæti sem slíkir atburðir eru allajafna, en á okkur líka lifandi að drepa með sífelldum fréttum af slíku. Lífið innifelur líka fallega hluti, góðar fréttir og jákvæðar sem hægt væri að segja frá.Það er fleira fréttnæmt en þau stríð sem ákveðin þjóð heldur úti í nafni lýðræðisumbóta en snúast í raun um allt aðra hluti. Við þurfum ekki á því að halda að fá stöðugar fréttir af þessum hráskinnaleik. Væri ekki nær að líta okkur nær og reyna að vera svolítið jákvæð, ekki veitir okkur af því. Ekki ætlast ég til að við lokum augunum fyrir hörmungunum í heiminum, en tel óþarft að setja þær fréttir ætíð í öndvegi. Þess utan er einkennilegt hvað fréttamat hér á Íslandi er einsleitt, yfirleitt aðeins sagðar frá einni hlið (sjónarhóli). Enda virðist sem allar erlendar fréttir sem sagðar eru hér komi aðeins frá fáum fréttaveitum, og allir fréttamiðlar hér á landi notist við þær sömu! Drögum aðeins úr því neikvæða og aukum hið jákvæða. Grin

Að langa til að tjá sig!

Sting mér hér inn í bloggheima vegna þess að stundum langar mig til að tjá mig og fá þá jafnvel viðbrögð við hugrenningum mínum, sem á stundum geta verið á nokkrum villigötum, fá þá jafnvel leiðréttann minn kúrs.
Eins gæti verið að maður setti inn einhvern gamlan eða nýjan skáldskap úr skúffunni góðu sem virðist vera til hjá flestum Íslendingum.

"Einu sinni, eða var það kannski tvisvar?
Allavega verður allt einu sinni fyrst!
Og þegar einu sinni hefur verið má búast við framhaldi.
Allt fram streymir, kannski ekki alveg endalaust,
en allavega í drjúgan tíma.
Heimur okkar sem er takmarkaður,
allavega takmarkanlegur eftir einstaklingum.
Því allir búa jú í sínum takmarkanlega heimi.
Því enginn nær því að vera takmarkalaus, eða hvað? "


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband