Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

„Svo skal böl.....

Með fullri virðingu fyrir biskupi Íslands, er þessi afstaða ekki bara yfirklór. Hvenær ætlar embætti það sem Karl er í forsvari fyrir að hreinsa til í sínum ranni. Ekki vil ég vera talin mannorðsmorðingi, en of lengi hefur embættið skirrst við að taka á þeim leiðu málum sem innan þjóðkirkjunnar hafa komið upp. Ekki gengur sú lausn að; „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“.
mbl.is Mannorðsmorð daglegt brauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var og.......

Ekki styð ég endilega lögleiðingu marijúana, en ég spyr hví ekki. Áfengi sem er löglegt fíkniefni í hinum vestræna heimi er ekki skaðlaust heldur. Hefur valdið og er sífellt að valda vandamálum og það ekki neinum smáum. Hver þekkir ekki til alkahólisma, sem er líklega innan flestra fjölskyldna og ofbeldið sem líka vill fylgja áfengisdrykkju. Ekki eru mörg dæmi ofbeldis tengd neyslu marijúana. Hófleg notkun skaðar engan, hvorki áfengisneysla né kannabisreykingar en ofneysla þessara efna gerir það vissulega. Í því liggur málið, hófleg neysla. Þykir mér líka undarleg afstaða sem hef orðið mjög var við að sá sem ekki neytir áfengis, að eigin vali, þykir vera frekar undarlegur í þessu þjóðfélagi. Er það ekki svolítið undarlegt!
mbl.is Helmingur hlynntur lögleiðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtekið verklag.

Ekkert nýtt við baktjaldamakk í Íslenskum stjórnmálum. Og flestir ættu nú þegar að gera sér grein fyrir því að í gegnum EES samningin höfum við verið að taka inn reglugerðirnar eina af annari og erum nú þegar langt komin með það. En vonandi fáum við kjósendur að greiða atkvæði um aðild eða ekki aðild. Alþingi standi við það fyrirheit.
mbl.is Samið fyrirfram um ESB umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

tíðarprósi............

Hvers er maður megnugur þegar taktur lífsins hefur hægst og manns helsta nautn er svefninn samneyti við hitt kynið hverfandi hvílubrögðin að gleymast tilfinningalegur samruni tveggja sálna sem berast um í stuttri eilífðinni sem þó hangir á bláþræði komandi heimskreppu ofan í kaupið eins og það gerist best á eyrinni og karlarnir stungu saman nefjum hímandi undir veggjum bryggjuhúsanna forðum austur á landi í kreppunni milli stríða á annari öld allir sem einn með hatta flestir þó með sixpensara biðu þess að eftir þeirra kröftum væri kallað til lestunar eða losunar á einum eða öðrum dalli hver hefði lukkuna með sér í dag heima biðu börnin ekki sveltandi en ekkert sældarlíf á þeim tímum síðan kom herinn Breskur og veitti nýju lífi inn í hversdaginn brátt tók hagur að vænkast fólk í hópum á mölina sótti nýjan stíl dans á Borginni ungar stúlkur sóttust í swing með dátum fyrst breskum svo amerískum tyggjókúlur blásnar silkisokkar og fínerí ástandið hafði stungið sér niður í littlu borgina við sundin nú lýsir friðarsúla Lennons beint upp í himnaríki hvar ríkir einmitt hin stóíska ró en týndur er sálarfriður vegvilltra manna sem leita lausna við ótta sínum stöðugum um lok heimsins og svart framhald eiverunnar hvar ekkert lengur hrærist en Bond vildi hristann ekki hrærðann Martini og aðal skvísuna í kaupbæti heyrst hefur að hann sé nú að safna skeggi fyrir næstu svaðilför á lendur milliríkjaviðskipta og eða brjálaðra vísindamanna ó hve yndislega og háttvíslega hann hefur oss bjargað fyrir hornin fimm dimmalimm nema þessar lendur séu frekar lendar hinna íðilfögru kvenna sem vilja klekkja á honum hafa hann undir á einn eða annan hátt svo sem velkunnugt ætti að vera er hann einmitt Íslandsættaður Kanadamaður enda ráðagóður með afbrigðum rétt eins og aðrir nýrri útrásarvíkingar sem sigldu litla eylandið í kaf já bólakaf enda var þetta ástand allt ein allsherjar bóla en nú bólar ekkert á endurgreiðslum hins illa fengna fés ættum að safna fyrir ráðningu frænda vors Bonds James að taka í lurginn á þessum peyjum snúa þeim á hvolf sjá hvort ekki hristist úr vösum þeirra smáklink væri þá allavega hægt að dunda sér við hið saklausa ungdóms fjárhættuspil hark en munum við ekki bara harka af okkur eins og fyrri daginn og kveða við raust þetta reddast allt því nú getum við í sátt borgað skuldir eins og Icesafe og allir verða svo kátir því við erum svo heiðarleg og megum ekki vamm okkar vita þó veit engin hvert allir tölvupeningarnir fóru enda margt Matrixið sem skilning brestur til að fylgja eftir út í paradísareyjarnar hvar smjör drýpur og sólin vermir kalda væringjapilta úr norðrinu frá eyjunni sem sumir kannast við að sé eyja guðs aðrir Ultima Thule og enn aðrir syngja um Ísland farsældar Frón þó ekki sé hátt kveðinn bragur braggast munum hratt og vel er fram líða stundir því sólin vermir jafnt þá snauðu sem hina ríku og lífið er þrátt fyrir allt svo skemmtilega margslungið að ekki er annað hægt en syngja við hvurn sinn fingur og af fingrum fram spila gleðibrag.

Ja, hérna hér...

Mikil er sú fjármálaviska sem þessir stjórnmálamenn hrista fram úr ermunum eftir hentugleikum. Leysa fjármálavandann með lánum frá Kína og Rússlandi. Slökkva eldinn með því að skvetta olíu á eldinn. Bravó!
mbl.is Vilja margfalda björgunarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónýtt peningakerfi.

Verða þjóðarleiðtogar innan Evrópusambandsins ekki einfaldlega að fara að horfast í augu við það að þessu peningakerfi verður ekki bjargað. Upp er runnin sú tíð að nú verði að taka djarfar ákvarðanir, afskrifa allan skuldapakkann og byrja upp á nýtt með nýjum gjaldmiðlum sem studdir eru af alvöru verðmætum. Peningar sem bankarnir (sem allir eru í einkaeign) búa til úr lofti einu saman, lána gegn ofurvöxtum, lán sem aldrei verður hægt að greiða upp, s.b. íbúðalán á Íslandi sem dæmi. Þetta kerfi er komið að fótum fram og eina leiðin er að búa til nýtt sanngjarnt kerfi án vaxta. Þjóðríki geta búið til sinn eigin gjaldmiðil,losað sig undan einkabönkum og farið að vinna með þegnum landa sinna í stað þess að stjórnast af gjörspilltum bankaeigendum. Hingað og ekki lengra takk, opnum augun og breytum vonlausu kerfi til hins betra.
mbl.is Titringur fyrir leiðtogafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ansans............

Mikið er það nú sorglegt að það skuli finnast enn svo mikið magn olíu. Það mun fresta því eða jafnvel koma í veg fyrir að við jarðarbúar tökum okkur saman í andlitinu og förum að draga úr rányrkju okkar og slóðaskap. Áfram munum við menga eins og enginn sé morgundagurinn og enn stytta lífbærileika jarðarinnar. Sem er okkar eina heimili og við verðum að reyna að fara að vernda af alvöru.

mbl.is Tvöfalt meiri olía en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt peningakerfi.......

Er um eitthvað annað að ræða en núlla út skuldirnar og byrja á nýju sanngjarnara og manneskjulegra viðskipta - peningakerfi. Kerfi sem byggir á einhverju raunverulegra en tölum í tölvum. Það alveg sama til hvaða áttar við lítum, við erum komin að vendipunkti í tilveru okkar. Við verðum að endurhugsa allt okkar fyrirkomulag. Gamla máltækið „Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við" á vel við, nú sem aldrei fyrr.

mbl.is Moody's lækkar héröðin á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði falt fyrir smáklink!!

Hvarflar að manni að þetta viðgangist víðar og hafi gert lengi. Jafnvel í því landi sem vill státa sig af hvað lengstri lýðræðishefð. Og þó að ekki hafi endilega verið greitt fyrir atkvæði með beinhörðum peningum þá hafi greiðslan frekar verið í formi fyrirgreiðslu. Einmitt eitthvað sem kemur engu lýðræðisríki til góða til lengri tíma. Eitt hið versta mein sem hefur einmitt grasserað hér um langa tíð. Og ef við höfum raunverulegan áhuga á því að byggja upp nýtt sanngjarnara og heiðarlegra samfélag verður að reyna að lágmarka slíka ólöglega fyrirgreiðslu. Og það á við um okkur öll. Sameiginlega getum við búið til heilbrigðara samfélag ef við viljum!
mbl.is Tæp 20% Búlgara til í að selja atkvæði sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsemd fjöldans!

Það er fleirum og fleirum út um allan heim að verða ljóst að það peningakerfi sem hefur viðgengist nú um langan aldur er komið að endimörkum sínum. Það ætti öllum að vera orðið ljóst að þær gríðarlegu skuldir sem þetta kerfi hefur búið til verða aldrei að eilífu borgaðar upp. Peningakerfi sem nærist á vöxtum getur ekki gengið upp, auðlindir jarðar eru ekki óþrjótandi, við erum komin að endimörkum hagvaxtarins. Jörðin okkar, plánetan sem við ferðumst með í óravíðáttunni er okkar eina heimili og við erum komin á síðasta snúning, nú verðum við að snúa þróuninni við. Við verðum að fara að rækta meira af fæðu okkar heima í eigin landi, leita leiða til að knýja vélbúnað okkar með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, við verðum að leitast við að verða sjálfbært land. Það eru blikur á lofti í alþjóðastjórnmálum, friður er ekki tryggur. Eina leiðin er að verða sú í skuldamálunum  einfaldlega að strika út allar skuldir, byrja að vinna saman að heill alls mannkyns, það er í raun engin önnur leið. Og hvað varðar þau mótmæli sem svo víða eru komin í gang þá er það bráðnausynlegt að þau séu aðeins friðsöm. Að ekki gefist ástæða fyrir stjórnvöld nokkurs staðar að beita lögregluvaldi eða hervaldi gegn þegnum sínum, það væri bara til að setja af stað atburðarás sem aðeins getur endað á einn veg!

mbl.is Mótmælt við kauphöllina í Toronto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband