Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
kannski......
28.7.2014 | 21:21
Það sem maður hugsar og það sem maður gerir er tvennt af
ólíku tagi en kannski mun einn daginn verða breyting á
og hin tæra verund taka yfir, lífið verður ein heild.
hógværð.....
28.7.2014 | 21:09
Og í hugarfylgsninu
verður stundum til
þetta tóm, eitthvað
sem er ekki neitt en
fyllir samt út í allar
glufur og kemur í veg
fyrir að upp spretti
hugsun ný og falleg,
sem gæti á sinn
hógværa hátt bætt
heiminn í eitt andartak.
©Steinart 2014
á milli........
28.7.2014 | 21:05
Það sem máli skiptir
og það sem engu máli
skiptir og allt þar á
milli sem er bið.
©Steinart 2014
Hugsanir innan í hljómheimi................
12.7.2014 | 12:01
Draumar sem festir eru á mynd og varpað út til fjöldans til ígrundunar á lífinu og þess mörgu hliðum og skúmaskotum.Allt það skrýtna sem sífellt er í gangi, þessi leit að lífsfyllingunni og þau öngstræti sem göngum á leið okkar í leitinni að okkar sannleika. Texti sem flögrar í eitt augnablik fyrir augum okkar á skjánum, hin rafræna veröld sem þurrkar upp minni okkar, munum við eitthvað lengur, man sjálfur ekki einu sinni mín eigin ljóð, prósi minn lifir sínu eigin lífi í þögn og einangrun rétt eins og höfundurinn. Og öðruhverju er rekið upp öskur á veraldarvefnum í von um að einhver sé hugsanlega að hlusta í tíma sínum og vakandi verund.
Taugaboð á vefnum, Neo ~*+ vaknaðu, komdu og bjargaðu okkur, stígðu með okkur í gegnum blekkinguna, veittu okkur sólarsýn. Og taugaboðin sem truflast í hinum alltumlykjandi rafræna veruleika okkar, skekkja viðgang okkar og dregur úr hinni náttúrulegu tengingu við guðdóminn, ef þú trúir
Svarhvít mynd dreginn upp með rauðum lit í grænni slikju endurminningar sem vitum þó ekki hvort er okkar eða leifar af gamalli kvikmynd sem hafði einhver áhrif á skoðanamyndun okkar á sínum tíma. Heitar ástríður fyrir hinum eina sannleika ungdómsáranna er við börðumst við að sýna hinum eldri frammá hversu innihaldslaust þeirra líf og hugsanagangur væri, göngum svo sömu götuna og fáum sömu meðferð frá börnunum okkar. En þokumst við áfram sem skyni gæddar verur eða höggvum vér í sömu knérum, tæknin vex en umhyggjan fyrir hvort öðru og móður okkar jörðinni, vex hún?
Steinart 12. júlí 2014
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)