Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
nálgast hina tæru þekkingu........
2.6.2013 | 12:47
Margföld er nálgun mín, blekking hins venjubundna lífs almúgamannsins er hula ofin úr innprentuðum væntingum frá áróðursmeisturum auðvaldsins. Hef sjálfur gengið göngin, farið um völundarhúsið, hlaupið í hringi eins og vel uppalinn rakki. Gert tilætlaðar kúnstir, knúið hamingjuhjól aðalsins eins og hamstur um nótt. Og allt í einu verður manni fært að strjúka huluna frá augunum ef maður vill, en standa þá líka í eyðimörkinni, sviptur táknum hinnar ytri staðalímyndar.
Já, nakinn í eyðimörk hinnar táknrænu skilgreiningar, sviptur hinum ytri einkennum stéttar þinnar. Rétt eins og Adam, hinn fyrsti maður sem hafði í hendi sér alla hugsanlega möguleika hinnar nýju verundar á jörðu hér.
Og hvar hefur lífsins straumur borið okkur, haldreipið er hið innra, veröldin öll er eins og við höfum gert hana, við getum gert hana að einhverju öðru ef við viljum það.
Í upphafi vorum við alls megnug, sköpunin var í okkar höndum en um leið líka hin öflugu eyðingaröfl.
©Steinart