Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Hvert sem við förum.

Það var um nótt, líklega að áliðnu sumri að staulaðist heim úr bænum, slompaður en ekki ofurölvi, það hafði ekki gengið vel hjá mér um kvöldið, hafði verið að reyna að heilla stúlku sem lengi hafði haft augastað á, varð ekki kápan úr því klæðinu frekar en oft áður, einmannaleikinn slóst í för með mér heim, upp Túngötuna, til hægri er komið var að Garðastræti og ef hugur var þungur eins og oft bar við er við einmannaleikinn studdumst við hvorn annan var strikið tekið í gegnum Hólavallakirkjugarð, jafnvel sest á bekk og kveikt í sígarettu, farið yfir atburði kvöldsins og særð sálin hugguð ef kostur var, gengið gegnum hliðið við Hringbraut og áfram suður yfir götu, man að   er ég beygi af Birkimelnum og geng að Víðimel birtist allt í einu þessi stúlka, virðist hálf ráðvillt, hún var dönsk og hafði orðið viðskila við einhvern sem hún taldi að hefði verið vinur sinn og félagi í nóttinni sem væri hennar síðasta á Íslandi því að hún flygi heim seinna þann daginn, fylgdi með mér heim, áfram suður Furumel og inn Grenimel, annað hús á vinstri hönd, niður fáeinar tröppur að vestanverðu og er innfyrir útidyrnar var komið, gangur, aðrar dyr til vinstri, salerni,  þar inni var ætíð geymdur lykillinn, stór gamaldags að hinum fyrstu dyrum til vinstri sem voru mín híbýli, smá en buðu mann samt ætíð velkominn, spjölluðum, trúlegast boðið henni einhvern drykk, hún rekur þar augun í ljóðabók sem hafði nýverið eignast og verið að glugga í áður en fór út um kvöldið, en bókin var einmitt eftir danskt ljóðskáld sem hún kannaðist vel við “Henrik Nordbrandt“ og bókin  “Hvert sem við förum“, já, þá er kannski komið að kjarna málsins eða næturinnar og þess er af henni lifði, ung frjálslynd dönsk stúlka á leið til síns heima að fáeinum tímum liðnum og ungur maður, tvö reköld á lygnum sjó augnabliksins, þá var hugmyndin um að augnablikið væri hið eina sem væri í boði ekki búin að skjóta rótum í huga mér, og aldrei hef ég verið mjög hvatvís, upp í huga minn spratt að þekkti ekkert til stúlkunnar, hún gæti verið smituð af einhverju óæskilegu og veit ekki hvað, eins og maður væri nú alltaf að spá í slíkt, ónei, en    tækifærið rann úr greipum, tækifæri til lítillar gleðistundar og unaðar, tíminn leið áfram sína stund og allt í einu var ég einn í öngum mínum, veit þó innst inni að hluti að þessari málalykt var að hugur minn var hjá stúlku sem ekki hafði viljað með mig hafa fyrr um kvöldið, en von mín lifði og einhverskonar trúmenska við stúlkuna sem þó var ekki mín, en átti hjarta mitt á þessu augnabliki, steig minn karmíska dans á mörkum hins skiljanlega.

Hvert sem við förum

Hvert sem við förum komum við alltaf of seint

til þess sem við lögðum forðum af stað til að finna.

Og í hvaða borgum sem við höfum dvöl

eru það þau hús sem orðið er um seinan að snúa aftur til

þeir garðar sem orðið er um seinan að dvelja í eina

                                                                      tunglskinsnótt

og þær konur sem orðið er um seinan að elska

sem valda okkur hugarangri með óáþreifanlegri nærveru

                                                                                         sinni.

Og hvaða götur sem við þykjumst þekkja

liggja þær framhjá þeim blómagörðum sem við erum að

                                                                                 leita að

og dreifa höfugri angan sinni um hverfið.

Og í hvaða hús sem við snúum aftur

komum við of síðla nætur til að þekkjast.

Og hvaða fljótum sem við speglum okkur í

sjáum við okkur ekki sjálf fyrr en við höfum snúið við 

                                                                         þeim baki.

Henrik  Nordbrandt

    Hjörtur Pálsson íslenskaði, útg. Urta.

En nú á þessum síðbúna upprifjunartíma reynir maður að halda sig eingöngu við núið, vera meðvitaður um hina skömmu stund, opin augun fyrir tækifærunum sem reyndar virðast láta á sér standa eða kannski sér á sama standa.....................

 ©Steinart, október 2013


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband