....af Borginni á eyðieyju..................
8.3.2014 | 16:40
Leið fram um veg ástin sem á harðaspretti
reyndi eftir megni að ná.
Leystist upp, hvarf í húminu.
Rann upp í eigin mynd á ný við fullt tungl.
Svart í skini, rauð er táknmynd, ástarþrá.
Langdregið hlaup í von, völundarhúsið
dregur þig nær endalokunum.
Hlaupið eftir villuljósum í niðdimmri áfengri nóttinni,
ljósasýning dansgólfsins sem endurvarpaðist úr
augum þínum blindaði skynsemi mína,
leiddi mig í hafvillu með þér.
Og þig sem dreymdi ætíð um eyðieyju,
hvað myndir þú hafa haft með þér á eina slíka,
brennandi sólin í hvirfilpunkti.
Síðustu tónarnir á Borginni fjara út,
á Austurvelli mannmergð, sumarið var tíminn.
Leiddi þig upp Tjarnargötu, spurðir mig um langanir,
framtíð og þar með týndist hugur minn í göróttri
hugdeyfð og ekki varð aftur snúið til þess sem hefði
getað orðið andartaki fyrr.
Mörgum árum seinna losnar hugsunin og flýtur
upp á yfirborð þekkingarvatnsins.
Eftirsjár og brostnar vonir, síðdegi ágengs aldurs
sem færist yfir eins og stormur af hafi, hlýnun jarðar
sendir kuldagjóstin yfir oss, hrollurinn læðist niður bak.
Bak og burt er hugdirfð ungdómsáranna,
í öngstræti liggur vonin, ástin flutt af landi brott,
farin í sólina, dansar húlahúladans á gulri strönd
undir pálmatrjám, ómur af reggaetakti.
Seglum þöndum um merlandi mar fer hugur minn ..
©Steinart 2013
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.