Setið með ískaffi í sólskininu.

Og um hvað talar það,
fólkið sem nýtur vorsólarinnar,
hægt auknum hita utanvið kaffihúsin,
þar sem er skjól fyrir norðangarranum.

Já um hvað er talað,
kannski síðustu umræður á Alþingi,
hvort þar séu að verða til haldbærar
lausnir fyrir sligaða alþýðu eða aðeins
enn ein ívilnunin fyrir hina útvöldu.

Nei, "eins og sumir Norðmenn byrja allar setningar",
kannski bara bollaleggingar um eitthvað djúsí á
grillið í góða veðrinu og vínglas á kantinum,
líkt og grillauglýsingarnar hafa sannfært okkur um
að sé normið í grillbransanum.

Kannski snúast samtölin um eitthvað
djúpt úr sálarkirnunum, leyndarmál sem
stíga úr myrkrinu, gömul ástamál,
hrösun á lífsins þrönga vegi.

Og þyngslin sem hefta andann,
hin hversdagslega iðja,
baráttan fyrir salti í grautinn,
salt jarðar sem hleypir upp bragðinu,
bragðið af réttunum og er almenningur
ekki einmitt sífellt beittur brögðum,
gengur sína mörkuðu leið sáttur,
svipugöngin sjálfviljugur.

©Steinart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband