„Prósi í kjölfar bankahruns og sambúðarslita á því herrans ári 2008.“

Þegar hugurinn opnast fyrir því að ekki er í raun hægt að bíða mikið lengur eftir því að tækifærin komi til manns, að maður verður sjálfur að sækja það sem langar í, þá hefur greinilega örlað á örlitlum þroska, ástin leitar þig ekki uppi, það er orðið ljóst, hún liggur ekki í leyni, býður ekki tækifæris að hremma þig þegar léttstígur lallar í “Kringlunni” töltir niður “Laugaveginn” í norðanbálinu með sólgleraugu um haust, þegar þú hefur í mörg ár dvalið í öruggu skjóli sambúðar, í notalegri hlýju hversdagsins, ekkert lagt á þig til að halda þér í formi, tapað niður samræðulistinni, týnt burt léttleikanum og kímninni, getur ekki lengur gert grín að sjálfum þér, sérð ekki lengur hina kómísku hlið tilverunnar, þó búinn að uppgötva fjarveru guðanna, haldleysi trúarbragðanna, hræsni klerkanna, ægivald fjármagnsins, forheimskun síbyljunar, hins geigvænlega áreitis, lyginnar sem sífellt er lætt að okkur í upplýsingasamfélaginu, búið að festa okkur á klafa, orðin þrælar í þjónustu fyrir bankanna, vextir-vaxtavextir-verðtrygging-verðbætur-vísitölugrunnur, ólögleg gengistryggð lán, fjármálafyrirkomulag sem gerir lítið úr okurlánum Ítölsku mafíunnar, standir þú ei undir skuldbindingum þínum ertu gerður upp, allt af þér tekið, en að auki eltur þar til hver króna er borguð, en sértu af þeirri stétt sem rekið hefur hina miklu útrás og landvinninga í skjóli banka sem útvöldum var úthlutað fyrir smáaura og í raun ekki borgað fyrir, þá þarftu ekki að borga neinar skuldir þínar en heldur þínum rekstri áfram með aðstoð ríkisins, okkar almúgans sem enga grið fær einungis aukna skattheimtu og minna kaup en með bros á vör göngum við til móts við verkefnið því í andstreymi blómstrar kannski helst hugmyndaríkið, skáldskapur napur og kaldhæðinn, eitthvað sem skemmtir skrattanum og okkur hinum, nú þegar fjarar undan, vinnan verður stopulli eða engin, áhyggjurnar magnast þá er haldreipið létt lund og spaugsemi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband