Kaffistofuspáin.
17.11.2010 | 22:48
Í svarbrúnni kaffiiðunni speglast líf mitt.
Einskisnýt er sú sýn segi ég!
Spá mín byggir á bollaleggingum, þurrir hringir kaffikorgs,
lýsa því að fyrir dyrum standi ferð.
Jæja segi ég, yfir í annan heim (?).
Hún lítur á mig sposk á svip, ó nei, sú ferð er ekki í þessum bolla.
En ef þú fengir þér Expresso gæti verið vísbending!
Hver er þá ferðin spyr ég ráðvilltur.
Ferð þín verður ekki af venjulegum toga, þessi ferð verður sú
sem þig hefur dreymt um að fara.
Ég lýsist upp eins og 100 kerta pera, svo að í hálfrökkvaðri
kaffistofunni verður skellibjart eitt augnablik.
Fastakúnnarnir kinka kolli, spákerlingin okkar hefur aldeilis
kveikt í þessum, hugsa þeir.
Nú og hvað með þessa ferð spyr ég óþolinmóður.
Já, segir hún ánægð með sjálfa sig.
Þessa ferð, ferð þú í huganum.
Þér mun verða ljós tilgangur þinn í þessu jarðlífi,
þér mun opinberast hvernig þér verður unnt að verða
hamingjusamur og láta gott af þér leiða.
Þér mun verða ljóst hver mun standa þér við hlið í lífinu, ástin þín.
Um mig fer sælukenndur hrollur, svo borðið skelfur.
Enn líta fastakúnnarnir upp og glotta.
Hvað sérð þú fleira spyr ég ákafur.
Þetta er allt, segir spákonan, býr sig undir að fara.
Róleg, róleg segi ég, hvenær verður þessi ferð?
Innan skamms segir hún kankvís, pakkar saman spábollum og spilum og fer.
Ég kveiki í sígarettu, panta meira kaffi, er allur á nálum,
sekk í dagdraumanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.