Hressó!

Sú var tíð hér í Reykjavík að ekki var eins gott aðgengi að vínveitingahúsum og er í dag. Man eftir því er við vinirnir reyndum eitt árið allar þær leiðir löglegar sem okkur datt í hug til að geta skemmt okkur í Rvík um páska. Vorum viðloðandi landsbyggðina á þessum árum og þar var ekki þetta vandamál til staðar, yfirleitt í það minnsta eitt eða tvö böll um páskahelgina. En nú vorum við staddir í Rvík, trúlegast flestir í einhverskonar námi. Og páskar og hreinlega allt meira og minna lokað, samt var nú aðeins farið að vera um það að veitingamenn væru að teygja sig eins langt og þeir komust upp með, t.d. um þessa páska var opið á "Hard Rock" í Kringlunni og við þangað. Pöntuðum okkur að borða og að sjálfsögðu viðeigandi vínveitingar, þóttumst nú aldeilis vera búnir að bjarga í það minnsta þessum degi. En viti menn, í hálfnaðri máltíð mæta laganna verðir og loka búllunni, minnir þó að fengjum að ljúka því sem þó vorum byrjaðir á. Á þessum misserum voru veitingamenn að reyna allt hvað þeir gátu til að mæta betur auknum kröfum almennings og ferðamanna um aukna þjónustu. Eitt var það t.d. þegar verið var að reyna að fá leyfi til að afgreiða áfengi út eins og tíðkaðist erlendis og við þekkjum vel og njótum í dag, þá voru veitingamennirnir á "Hressó" fyrstir til, enda bjuggu þeir að þessum fína innilukta garði. En þeir þjófstörtuðu, ekki fengust leyfi fyrr en eftir töluvert stímabrak í ráðuneytunum. Við vinirnir vorum líka stoppaðir af í skemmtuninni þar af laganna vörðum. Og í tilefni af þessu öllu varð til þetta "ljóð" Hressó! Til gamans má geta að ári seinna var einmitt efnt til ljóðasamkeppni á vegum veitingahússins, og átti einmitt að fjalla um það á einn eða annan hátt. Þessi ljóðasmíð rataði þó aldrei þangað.

 

Hressó!

 

Í garðinum, umluktum húsum.

  Síðsumarsól, kaffi, te, eða var það öl.

Tilfinning fyrir nýrri andakt í gömlu veitingahúsi.

Flækjur lagabálkanna, má eða má ekki,

drekka öl undir berum himni?

  Sitja við gluggann með ljúfan kaffi,

horfa á mannlíf Austurstrætis.

Höfuð kýld niður í bringu,

veðurhamur vetrarins, eykur hraðann.

Fólk á hlaupum, komast í skjól, á Hressó um jól.

  Helgi, tættir tónar sleppa út, en ekki fleiri inn,

biðröð í rigningunni.

Hið dagfarsprúða kaffihús skiptir um klæði.

Hart rokk tekur völdin, víman vex.

  Páskar, nýir tímar, kaffi og kökur alla helgina.

Liðast lífið á snigilhraða trúarinnar.

  Já, liðnir ljúfir tímar

    á kaffihúsi í Reykjavík. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband