Þrjú högg!
23.10.2010 | 14:10
En svo var það þetta skrýtna, þessi kona
sem kom og þreif hjá mér einu sinni í viku.
Já, ég vissi ekki afhverju, hver hún var eða hvaðan.
Ekki þáði hún laun frá mér, ekki einu sinni kaffibolla.
Alltaf á þriðjudögum, á slaginu eitt,
birtist hún á tröppunum.
Sló þrjú létt en ákveðin högg á dyrnar,
samt hafði ég dyrabjöllu, mikið hljómaspil
og fallegt, en nei, alltaf þrjú létt
ákveðin högg.
Aldrei talaði hún, fyrst þegar hún kom,
já, hvenær var það nú aftur, ----
man það ekki, nokkur ár síðan.
Bank bank bank, ég undrandi, hva ætli bjallan sé biluð!
Stendur hún þarna á tröppunum.
Með kústa, fötur, tuskur, fægilög og bón,
já, hvað það heitir nú alltsaman,
þetta sem konur nota við þrif!
Góðan daginn, sagði ég, benti henni á bjölluhnappinn,
ýtti á hann, jú jú, bjölluhljómurinn
fallegur og tær.
Hún breytti ekki svip, kinkaði aðeins kolli,
rótaði í kápuvasanum, dró upp velkt
pappírssnifsi, rétti mér.
Þegar hafði slétt úr snifsinu, blasti það við mér,
nafnið mitt.
Man það skýrt, leit í augu hennar, grá-fljótandi,
hér-þar, svo óræð, samt eins og svo
viss í sinni sök!
Já, þetta er ég, meinti þá að hún hefði
fundið réttan mann.
Hvað get ég gert fyrir þig?
Hún rétt beraði tennurnar, var það bros,
veit ekki, trúlegast.
Með látbragði sýndi hún manneskju að þrífa,
og þá meina ég "Þrifnað" með stórum staf,
tók upp af tröppunum fötu sína og
tilheyrandi og gekk inn.
Engu ansaði hún spurningum mínum,
aðeins þetta - kannski bros.
Svo, að mér fannst, með eldingarhraða
þreif hún allt hátt og lágt.
Indælt!
Alltaf á þriðjudögum á slaginu eitt,
þrjú létt en ákveðin högg.
Hver hún var, hvaðan, hver sendi hana,
borgaði laun, það veit ég ekki.
En þetta var sannarlega indælt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.