Gæti brugðið til beggja vona.......

Samið líklega 1994
 
Fororð. 
 
Skrýtið hvernig það sem í aðra röndina maður hæddist að verður svo 
raunveruleiki manns á einhverjum tímapunkti lífsins.
Að einhverju leiti hafi þessi prósi þó svartur sé, einhverja forspá
innbyggða í sér. Því engin veit sína ævina..............
 
~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
 
Gæti brugðið til beggja vona,
líf í heilbrigði eða í
solli vímunnar. 
 
Engin löngun, enginn metnaður.
Tómið eitt.
Þegar ekkert bærist í huganum er þá ekki
tími til kominn að enda partýið!
 
Reka liðið út, hlaða skammbyssuna,
sprautuna!
Hnýta snöruna, klífa upp þak
og mæta dauðanum.
 
Eða hreinlega blása í lúðurinn,
boða til veislu.
Drekka og dópa,
til upphafningar andans
og eða ólífis.
 
Láta sól blekkingarinnar - vímunnar
hita mann og kæta eitt andartak.
 
Eða kannski ganga í
einhvern sértrúarsöfnuð -
láta sefja sig í himinhæðir.
"Glory hallelúja".
 
Mörkin, hvar eru mörkin milli
geðheilbrigði - geðveiki?
 
Hvað er geðveiki?
Að snúast gegn ríkjandi viðhorfum -
siðferði tíðarandans?
 
Hvar máttur fjármagnsaflanna
ræður ferðinni. 
Þú ert þræll langanna þinna.
Og spurningin er;
hvernig komu langanir þínar til.
 
Hver leiddi þig um dal draumanna -
dal neyslunnar.
Hver sagði þér hvað þyrfti
til hamingjuríks lífs?
 
Hver fræddi þig um gildi lífsins -
hvað væri vert að eiga og eignast.
 
Líf neysluþegnsins gleður
púka á sperrum "Kringlanna".
 
Múra sig inn í steypukastala,
fá upplyftingu á miðilsfundum.
 
Já, horfðu á kristalinn þinn,
sjáðu hvernig hann brýtur ljósið.
 
Trúðu á rétt segulmagn.
Straumar - tíska - nýöld!
Hvar er Guð?
 
Ó, þú formyrkvaða veröld á flótta.
Sauðirnir hafa týnt hirði sínum!
 
Hagvöxtur! Töfraorðið.
 
Framleiða - framleiða - endalaust.
Framleiða drasl að selja - selja -
selja - hagvöxtur.
 
Móðir jörð - hún rymur, hún stynur,
þjáð af ofbeldi hagvaxtarins,
hún er opin und.
 
Brennur - myrkvast í eitri.
Ferðafrelsi - helsi blikkbeljanna.
Fljúga landa á milli - hvað er allt
þetta fólk að þvælast - reykur og
eymyrja - hraði - meiri hraða. 
 
Allt þarf að gerast á ofurhraða -
boð á milli landa - framleiðni -
tölvur og róbótar.
Hvaða þörf er fyrir fólk.
Hvaða stærð er það -
helst til óhagkvæmt vinnuafl!
 
Of mikið af tilfinningum,
seinvirkt, ónákvæmt, óhagkvæm stærð!
 
Hvílíkt böl, of margt fólk með of litlar
tekjur til að kaupa,
seinkar óhjákvæmilega hagvextinum.
 
Hvaða ráð eiga stjórnvöld við
aðsteðjandi vanda.
Fólk sættir sig ekki við að eiga enga 
von um atvinnu - eiga ekkert.
Skipta engu máli!
Hvenær springur blaðran?
 
Hvenær blossar bálið?
Hvenær opnast flugskeytaskýlin?
Hvenær hrópast rauðu takkarnir á?
 
Verða málin leyst án allsherjarstríðs?
Stöndum við ekki frammi fyrir því að
þurfa að hreinsa borðið,
svo grundvöllur skapist fyrir
endurskipulagningunni.
 
Þúsundáraríkið verður varla til
fyrr en eftir "Ragnarökin"!
Vona og sjá hvort lifir það af,
fáir að taka þátt í uppbyggingunni.
 
Mín "Útópía" - þín "Útópía".
Fyrirmyndaríkið sem alla er að dreyma.
 
Nýaldarfólk býst við hjálpræðinu utan
úr geimnum.
Kannski vinir þeirra frá
Snæfellsjökli?
 
Ef árangurinn er sá sami s.s. aðeins 
hinir skyggnu sjá og skynja,
þá er varla við hjálpræði að búast þar.
 
Skyggna liðinu verður kannski bjargað í
geimskip rétt á meðan stormurinn geisar.
Lifir vel í glaumi - vellystingum.
 
Komum á jörðina aftur, stöðluð ímynd - útlit.
Hið rétta útlit.
Ganga í augum - elítan.
Réttu samböndin - tengsl í réttar áttir.
 
Trúin gæti bjargað oss.
Veit ekki - kannski ef þú trúir því.
Líttu til sálar þinnar,
rifjaðu upp barnatrúnna,
þér var sagt frá hjálpræðinu.
 
Þegar maður hefur verið svo lengi
ofurseldur firringunni,
tapar maður áttum,
stendur einn trúlaus - einmanna.
 
Oft heyrt þá skilgreiningu síðustu ár,
fólk trúi á guð í sjálfu sér.
Að hið góða og vonda í því sjálfu
berjist um yfirráðin.
Og þar með á þessi skilgreining á guði þeirra að duga,
ef maður spyr, hvað með kirkjuna, Jesús,
hversvegna fermast, giftast í kirkju,
jarða með prestlegum hætti ef guð
er bara hið innra?
 
Af hverju allar þessar serímóníur - siði
ef þeir merkja ekki neitt?
 
Hvern á að blekkja? 
 
Hinn sjálfstæði nútímamaður í sinni vélaveröld,
heldur að vísindin eigi svar við öllu.
Bendir á að goðsögnin um Adam og Evu
standist ekki, þau geti ekki hafa verið hin
sanna byrjun, og hvað með Edensgarð? 
 
Darwin hafi með þróunarkenningunni
umbylt Biblíunni og sögum hennar
um Edensrann.
 
Sagnirnar í raun dæmisögur - líkingar.
 
En tvískinnungurinn - hræsnin,
fara eftir kirkjulegum siðum,
en kukla á kvöldin í spíritisma - skyggnilýsingum -
ásamt trú á steina og kristlla.
Nýöld yndislegur hrærigrautur.
Gamla guðstrúin höfð með ef ..................
sem varnagli.
 
 
Já, kannski er von -
með sameiginlegu átaki. 
 
~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~
 
E.s.
 
Dettur í hug að hefði kannski rétt eins og
James Douglas Morrison átt að henda skrifum
æskuáranna á bál.
 
En það er líka gott að hreinsa út úr sálinni, gömlum
pælingum og hugrenningum með því að varpa
þeim út á veraldarvefinn.
Hina nýju "Akasíukróniku". 
 
Og úr því að Jim Morrison er mættur á blað, en hann var
ljóðskáld og söngvari hljómsveitarinnar "Doors" eða The Doors ef vill.
Nafn sveitarinnar er tilkomið eða dregið af titli bókarinnar;
"The Doors of Perception" eftir Aldous Huxley.
Í þeirri bók lýsir hann eigin upplifunum af skynaukandi lyfjum eins og
LSD og Meskalíni.
Hann er þó líklega best þekktur fyrir bók sína;
"Brave New World" sem kom út árið 1932.
Á íslensku kom hún út árið 1988 hjá MM í þýðingu
Kristjáns Oddssonar og heitir á því ylhýra;
"Veröld ný og góð".
 
En Huxley hafði einmitt mjög skýra sýn á það hvernig 
framtíðin gæti orðið rétt eins og vinur hans Georg Orwell. 
 
Kannski er þessi prósi sem á undan fór
einmitt samin undir áhrifum frá þessum mönnum.
 
Og þá bara þökk sé þeim. 
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband