Færsluflokkur: Ljóð

Hrafnar.

Svartur Hrafn
breiðir út vængi
stefnir til sólar
með hið niðdimma
úr huga mér.

Hreinsast í eldi
endurskapast
eins og fuglinn Fönix.

Rísa úr ösku
hinna forgengilegu
væntinga og vona.

Svífa á ný
til manna
Hvítur Hrafn.

©Steinart 16. apríl 2014



Fullfermi............

Og skútan siglir
gegnum
ginnungargap
andvökunæturinnar.

Fullfermi af
dagdraumum,
uppskipunarhöfn
í lognkyrrum svefninum.

Steinart, júní 2014


....af Borginni á eyðieyju..................

Leið fram um veg ástin sem á harðaspretti 

reyndi eftir megni að ná. 

Leystist upp, hvarf í húminu. 

Rann upp í eigin mynd á ný við fullt tungl.

Svart í skini, rauð er táknmynd, ástarþrá.

Langdregið hlaup í von, völundarhúsið

dregur þig nær endalokunum.

Hlaupið eftir villuljósum í niðdimmri áfengri nóttinni,

ljósasýning dansgólfsins sem endurvarpaðist úr

augum þínum blindaði skynsemi mína,

leiddi mig í hafvillu með þér.

Og þig sem dreymdi ætíð um eyðieyju,

hvað myndir þú hafa haft með þér á eina slíka,

brennandi sólin í hvirfilpunkti.

Síðustu tónarnir á Borginni fjara út,

á Austurvelli mannmergð, sumarið var tíminn.

Leiddi þig upp Tjarnargötu, spurðir mig um langanir,

framtíð og þar með týndist hugur minn í göróttri

hugdeyfð og ekki varð aftur snúið til þess sem hefði

getað orðið andartaki fyrr.

Mörgum árum seinna losnar hugsunin og flýtur

upp á yfirborð þekkingarvatnsins.

Eftirsjár og brostnar vonir, síðdegi ágengs aldurs

sem færist yfir eins og stormur af hafi, hlýnun jarðar

sendir kuldagjóstin yfir oss, hrollurinn læðist niður bak.

Bak og burt er hugdirfð ungdómsáranna,

í öngstræti liggur vonin, ástin flutt af landi brott,

farin í sólina, dansar húlahúladans á gulri strönd

undir pálmatrjám, ómur af reggaetakti.

Seglum þöndum um merlandi mar fer hugur minn……..

©Steinart 2013


hvíta örkin....

Já, horfi á auða örkina, fer yfir í huga mér hvernig lokkaði til mín skáldgyðjuna í þeim allra besta heimi hins flæðandi prósa sem einmitt rauf hina hvítu pattstöðu pappírsins, pappírs sem þó er ekki af þessum heimi, hins áþreifanlega, heldur svífur í lausu rými vélbúnaðarins, í hinu mikla “Matrixi“ Orpheusar og síminn hringir inn nýja atburðarás, Neo er hin fullkomna guðsímynd hinnar nýju veraldar sem stigið hefur úr djúpinu og leitast við að skilgreina hin dýpstu rök á ný, tunglsljósið hamast við að stinga gat á skýjahuluna, veita hinni nývöknuðu ást hið fullkomna leiksvið, já leiktjöldin hafa verið dregin frá í augnablik, ljósið er á persónum og leikendum, allir verða að taka þátt í hinum “Guðdómlega gleðileik“ og víst eru hinir fornu textar enn á kreiki og engin veit hvað er af himneskum uppruna og hvað ekki, sjálfskipaðir andans menn túlka hið helga orð, enn eina ferðina endalausu inn í nótt.

©Steinart 18/19.01.2014

(Hin magnaða stund miðnættisins)



strönd nýs upphafs.........

Áfram rennur vort líf til

strandar nýs upphafs.

Trú vor á hið gullna

tímabil Vatnsberans

er enn sterk, því trúin 

flytur fjöll úr stað

og himnarnir bifast,

ef þú vilt.

©Steinart 2013


Hvert sem við förum.

Það var um nótt, líklega að áliðnu sumri að staulaðist heim úr bænum, slompaður en ekki ofurölvi, það hafði ekki gengið vel hjá mér um kvöldið, hafði verið að reyna að heilla stúlku sem lengi hafði haft augastað á, varð ekki kápan úr því klæðinu frekar en oft áður, einmannaleikinn slóst í för með mér heim, upp Túngötuna, til hægri er komið var að Garðastræti og ef hugur var þungur eins og oft bar við er við einmannaleikinn studdumst við hvorn annan var strikið tekið í gegnum Hólavallakirkjugarð, jafnvel sest á bekk og kveikt í sígarettu, farið yfir atburði kvöldsins og særð sálin hugguð ef kostur var, gengið gegnum hliðið við Hringbraut og áfram suður yfir götu, man að   er ég beygi af Birkimelnum og geng að Víðimel birtist allt í einu þessi stúlka, virðist hálf ráðvillt, hún var dönsk og hafði orðið viðskila við einhvern sem hún taldi að hefði verið vinur sinn og félagi í nóttinni sem væri hennar síðasta á Íslandi því að hún flygi heim seinna þann daginn, fylgdi með mér heim, áfram suður Furumel og inn Grenimel, annað hús á vinstri hönd, niður fáeinar tröppur að vestanverðu og er innfyrir útidyrnar var komið, gangur, aðrar dyr til vinstri, salerni,  þar inni var ætíð geymdur lykillinn, stór gamaldags að hinum fyrstu dyrum til vinstri sem voru mín híbýli, smá en buðu mann samt ætíð velkominn, spjölluðum, trúlegast boðið henni einhvern drykk, hún rekur þar augun í ljóðabók sem hafði nýverið eignast og verið að glugga í áður en fór út um kvöldið, en bókin var einmitt eftir danskt ljóðskáld sem hún kannaðist vel við “Henrik Nordbrandt“ og bókin  “Hvert sem við förum“, já, þá er kannski komið að kjarna málsins eða næturinnar og þess er af henni lifði, ung frjálslynd dönsk stúlka á leið til síns heima að fáeinum tímum liðnum og ungur maður, tvö reköld á lygnum sjó augnabliksins, þá var hugmyndin um að augnablikið væri hið eina sem væri í boði ekki búin að skjóta rótum í huga mér, og aldrei hef ég verið mjög hvatvís, upp í huga minn spratt að þekkti ekkert til stúlkunnar, hún gæti verið smituð af einhverju óæskilegu og veit ekki hvað, eins og maður væri nú alltaf að spá í slíkt, ónei, en    tækifærið rann úr greipum, tækifæri til lítillar gleðistundar og unaðar, tíminn leið áfram sína stund og allt í einu var ég einn í öngum mínum, veit þó innst inni að hluti að þessari málalykt var að hugur minn var hjá stúlku sem ekki hafði viljað með mig hafa fyrr um kvöldið, en von mín lifði og einhverskonar trúmenska við stúlkuna sem þó var ekki mín, en átti hjarta mitt á þessu augnabliki, steig minn karmíska dans á mörkum hins skiljanlega.

Hvert sem við förum

Hvert sem við förum komum við alltaf of seint

til þess sem við lögðum forðum af stað til að finna.

Og í hvaða borgum sem við höfum dvöl

eru það þau hús sem orðið er um seinan að snúa aftur til

þeir garðar sem orðið er um seinan að dvelja í eina

                                                                      tunglskinsnótt

og þær konur sem orðið er um seinan að elska

sem valda okkur hugarangri með óáþreifanlegri nærveru

                                                                                         sinni.

Og hvaða götur sem við þykjumst þekkja

liggja þær framhjá þeim blómagörðum sem við erum að

                                                                                 leita að

og dreifa höfugri angan sinni um hverfið.

Og í hvaða hús sem við snúum aftur

komum við of síðla nætur til að þekkjast.

Og hvaða fljótum sem við speglum okkur í

sjáum við okkur ekki sjálf fyrr en við höfum snúið við 

                                                                         þeim baki.

Henrik  Nordbrandt

    Hjörtur Pálsson íslenskaði, útg. Urta.

En nú á þessum síðbúna upprifjunartíma reynir maður að halda sig eingöngu við núið, vera meðvitaður um hina skömmu stund, opin augun fyrir tækifærunum sem reyndar virðast láta á sér standa eða kannski sér á sama standa.....................

 ©Steinart, október 2013


Já, á vogarskálunum er ástin vegin...............

 

Hann situr við skjáinn

teygir sig út í heiminn

reynir að heilla til sín ástina

reynir að vinna ástir í litlum skilaboðum

brosir út í heim hinnar leitandi

rannsakandi ljónynju sem læðist um á netinu og

felur sig í víðáttu hinnar rafrænu skynjunar

færist um sviðið í felulitum 

skannar bráð sína

metur og setur á vogarskálar

kannar af innsæi kosti og galla 

stillir upp sem væri sakbending.

Reyni að koma vel fyrir

horfi út í órætt myrkrið

skynja augun sem meta eigindirnar 

strauminn af heitri ljónynju á veiðum

reyni að fá svörun

einhverja tilfinningu fyrir möguleika mínum,

hvort er vel metinn 

eða léttvægur fundinn............

©Steinart

 


vindur fram, hreyfir..........

Sit við og bíð þess að andrúm mitt hreyfist, ferskur vindsveipur hleypi fjöri í hugsanir mínar og athafnir. Að þú birtist mér í huganum og opnir fyrir hina sönnu lind sköpunarinnar. Þú mín fagra músa, strjúkir  huluna frá augum mínum og hleypir hinni tæru sýn  almættisins inn í vitund mína. Og orðin safnist í net mitt sem strengt hef í nærumhverfi mitt, geri þá að aflanum og beri fram á hvítum fleti vitundar okkar.

©Steinart


sem í Edensranni.............

Gæti verið að hugmynd mín að þessari “örsögn“, "örmynd" hafi komið til eftir að sjá kvikmyndina "Melancholia" eftir Lars Von Trier, mjög góð mynd. Hún fjallar einmitt um ókunna plánetu sem stefnir á jörðina. En eins og margir vita er oft verið að tala um plánetuna X, eða Niburu sem muni koma mjög nálægt jörðu, fara þvert í gegnum sporbaug jarðar, jafnvel tvisvar?
Veit ekkert um sannleiksgildi þessa, en það sem á að verða, verður.
--------------------------------
Okt. 2012

sem í Edensranni............

Í gönguferð
um velli græna
blíður andvari
sól í heiði
ljúfur kliður árinnar
sem rennur sinn veg
fuglar byggja framtíð
ungum sínum tilvonandi
dýr merkurinnar spök
sem í Edensranni
ný jörð, nýr sáttmáli
á himnafestingunni
nýr fylgihnöttur
Nibira hin dularfulla
hvaðan kemur nýi
sannleikur........

©Steinart

rétti út hönd mína.........

Smá umhugsun um hvernig stefnumót fara fram á samskiptavefjum nútímans......

 

rétti út hönd mína...............

 

Sæl vina, var að leita á síðunni þinni að því í hvaða stjörnumerki  þú værir, ætlaði að sjá út hvernig við myndum passa saman, þó ekki væri nema til að verða staðfastari í þeirri trú minni að við gætum átt ágætlega saman sem par. Já, veit að þetta er ekki það rómantískasta sem þú hefur séð en hvernig á að nálgast í dag, gefa stelpu undir fótinn nema í gegnum hina alltumlykjandi tækni, myndi senda þetta bréfkorn með bréfdúfu, ætti ég eina slíka. En s.s. hef verið að spá í þetta allt saman, mér líkar vel við þig, veit að við þekkjumst kannski ekkert svo mikið í dag en trúðu mér,  ég er ágætis mannvera og er sannfærður um að þú ert það líka. Þú hugsar kannski með þér afhverju hringir ekki maðurinn heldur, sem er auðvitað góð spurning, en tel samt betra að skrifa þetta litla bréf og gefa þér tíma til að melta þessa uppástungu í eitt augnablik.

Nú þegar augnablikið er runnið inn í eilífðina og svarið berst á öldum hátíðninnar þ.e.a.s. kemur skramblað, dulkóðað og úr vöndu að ráða, vill hún mig, vill hún mig allsekki eða kannski lengri umþóttunartíma, en tíminn rennur út, úr því fagra tímaglasi eilífðarinnar.

Get ég vitað hvort tilfinning mín er sönn, eða er þetta allt saman vottur af síðasta bjargráði sökkvandi manns, síðasta hálmstráið.

Og í höfði mínu bý ég til nýtt leikrit með meitluðum “dialog“ hvar allt mitt rómantíska æði eins og Þórbergur orðaði það svo skemmtilega fær farsælan endi og þau munu svífa inn á lendur hamingjunnar og horfa á sólsetrið til enda.

Eða er það svo, mörg tvíst, snúningar geta orðið í þessum sálardansi samskiptanna, hvar óvæntir fletir koma inn í dansinn, rúmban breytist í “breakdans“ fyrr en varir og hættan á snúnum ökkla margfaldast.

En draumur mun að lokum taka endi og upp verður risið og gengið inn í fagran daginn, sólin vor faðir og jörðin okkar ástkæra móðir munu umvefja líf okkar og kenna okkur nægjusemi og að ástin er allt.......

©Steinart 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband